154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

lögheimili og aðsetur o.fl.

542. mál
[19:59]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Einu sinni mætti ég á einhvern fund hjá Brunamálastofnun meðan hún var og hét. Þar var fólk ofboðslega stolt af því hversu langt Ísland hefði náð í brunavörnum á síðustu áratugum; það heyrði til algerra undantekninga að mannslát yrði í eldsvoða. En nú erum við komin á þann stað, þrátt fyrir býsna gott regluverk þegar kemur að brunavörnum í byggingarreglugerð, að frá júní 2020 hafa fimm manns látið lífið hérlendis vegna bruna í atvinnuhúsnæði. Oft myndi maður nú bara tala um faraldur þegar þetta er orðið svona stórt. Eitt mannslíf er einu mannslífi of mikið, hvað þá þegar þau eru orðin fimm.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í tvö atriði varðandi umfjöllun nefndarinnar, það eru tvær spurningar sem vakna í kringum þetta mál. Í fyrsta lagi: Refsingar af einhverju tagi eru oft það sem þarf til að húseigendur séu ekki að leyfa fólki að búa við óviðeigandi og hættulegar aðstæður. Voru eitthvað skoðaðir möguleikarnir á því að ef til bruna kæmi, ef upp kemur eldur og skemmdir verða á húsnæði þar sem síðan kemur í ljós að er óleyfisbúseta, kom til athugunar að húseigandi fengi bara ekkert greitt úr tryggingum fyrir skaða sem hlýst af eldi við þær aðstæður, alveg eins og eigandi skoðunarlauss breytts jeppa sem veldur dauðaslysi fengi ekki tryggingabætur fyrir eignatjón?

Og síðan varðandi upplýsingagjöf. Eins og ég nefndi hér í mínu fyrra andsvari erum við að tala um hóp sem samanstendur að mjög miklu leyti af fólki sem ekki hefur íslensku sem móðurmál. Hvernig er upplýsingagjöf varðandi skráningu í þjóðskrá háttað á öðrum tungumálum en íslensku? Þurfum við kannski að beina því til yfirvalda að taka betur á því við innleiðingu þessara laga?