154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

lögheimili og aðsetur o.fl.

542. mál
[20:06]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ingibjörg Isaksen) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir hennar andsvar. Varðandi lögheimilið og jafnvel án vitundar eiganda: Það sem er verið að leggja til hérna er einmitt að það sé á ábyrgð eiganda viðkomandi tiltekins húsnæðis að tiltaka hversu marga íbúa hann telur og metur sem svo að geti skráð sig með lögheimili eða aðsetur í viðkomandi húsnæði. Það er afar mikilvægt því að nú í dag eru í rauninni engin mörk á því, þannig að hver sem er getur skráð sig í húsnæði án vitundar eiganda. Þarna er verið að varpa ábyrgðinni yfir á eigandann þar sem hann skráir tiltekinn fjölda.

Varðandi leiguhúsnæði almennt á Íslandi hafa stjórnvöld verið að kalla eftir því að fá upplýsingar um hvaða húsnæði er í boði og með hvaða hætti það er leigt út og til hversu margra einstaklinga. Það er afar mikilvægt að hafa gagnsæi í þessu kerfi, að við höfum upplýsingar um þetta, einmitt til þess að geta brugðist við hópum sem búa við óviðunandi aðstæður. Það sem við höfum líka séð í umfjöllun um þetta mál er að það er allt of oft að einstaklingar búa í húsnæði sem er óöruggt hvað varðar brunavarnir og fleira. Þetta mál er einmitt til þess fallið að tryggja þessum einstaklingum öruggara umhverfi á sínu heimili til að geta búið og það varpar ábyrgðinni yfir á eiganda húsnæðisins.