154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

lögheimili og aðsetur o.fl.

542. mál
[20:08]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég get ekki séð að það séu nein úrræði fyrir þetta fólk. Um leið og íbúðareigandinn er búinn að setja fram, réttilega — eðli málsins samkvæmt ætti hann að hafa 100% rétt á því að ákveða hverjir búa hjá honum og eru með heimilisfesti þar eða lögheimili. En hvað á þá að gera fyrir þá sem hafa beitt þessu úrræði sjálfum sér til bjargar? Hvað ætla stjórnvöld að gera nákvæmlega í því að koma til móts við það fólk sem hefur neyðst til þess að skrá sig með lögheimili hjá einhverjum bláókunnugum einstaklingum, bara til að geta sýnt fram á að það eigi rétt á húsaleigubótum? Hafa eitthvað verið skoðaðar tekjur þessara einstaklinga, hversu bág staða þeirra er og hversu raunverulega bág búseta þeirra er einnig?

Hér vildi ég líka gjarnan nefna fólkið okkar sem býr í húsbílum og hjólhýsum og annað slíkt og getur ekki skráð lögheimili sín. Það er sannarlega ekki hægt að segja heldur að þau séu tryggð hvað varðar brunavarnir eða nokkurn skapaðan hlut. Þetta fólk getur ekki fengið húsaleigubætur. Finnst hv. þingmanni ekki ástæða til þess að við tökum heildstæðara utan um þetta til að reyna að taka utan um allan hópinn okkar sem þarf í rauninni á því að halda að fá björg í gegnum löggjafann hvað lýtur að þessum málaflokki? Ég hef t.d. mjög miklar áhyggjur af þessu fólki sem býr í hjólhýsum og annað slíkt. Ég hef líka mjög miklar áhyggjur af á fjórða hundrað einstaklingum sem eru heimilislausir og hefur jafnvel verið vísað á dyr hjá neyðarskýlum. Það fannst nú einn frosinn hérna bara fyrir nokkrum dögum, bara dáinn eftir að honum hafði verið vísað burt. Við vorum að ganga í gegnum frost og kulda þá nótt og hann lifði ekki þá nótt af. Þetta er vitað. Það eru bara nokkrir dagar síðan þetta gerðist og þetta er bara alvarlegt mál. Hvernig á að taka heildstætt (Forseti hringir.) utan um þá sem þurfa í raun og veru á allri okkar umhyggju og stuðningi að halda?