154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

lögheimili og aðsetur o.fl.

542. mál
[20:55]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður spyr: Er það forsvaranlegt að leyfa fólki að skrá aðsetur í atvinnuhúsnæði? Ég held að einfalda svarið sé bara: Nei, í rauninni ekki. Það er samt staðreyndin sem fólk býr við. Þúsundir manna búa í atvinnuhúsnæði í dag út af því einmitt, eins og hv. þingmaður nefnir, að hér er ekki nógu mikið af húsnæði á leigumarkaði fyrir fólk með lágar tekjur. Fólkið sem flytur hingað til lands til að halda efnahagslífinu okkar uppi, til að vinna í ferðaþjónustu, til að sinna heilbrigðiskerfinu, til að vinna í menntakerfinu okkar á lágu laununum sem við bjóðum fólkinu sem heldur uppi samfélaginu okkar, það hefur ekkert efni á því að vera á leigumarkaði og á engan séns á því að komast í eigið húsnæði. Þau hafa leitað inn á þennan markað, við getum kallað þetta gráan markað sem er utan regluverksins, og komið sér fyrir í atvinnuhúsnæði þar sem lífi þess er bara allt of oft teflt í hættu. Að leyfa fólki í þessum aðstæðum að skrá aðsetur sitt er ekkert annað en redding. Það er engin lausn, það er redding á þeirri staðreynd að þau eru bara í hættu og slökkviliðið þarf að vita hvar þau eru. Þessu fylgja engin réttindi heldur. Lögheimilisskráningu fylgja þó réttindi í því sveitarfélagi sem þú skráir lögheimili í. Lögheimilisskráning getur farið að hafa áhrif á það hvaða réttindi (Forseti hringir.) þú byggir upp. Eftir ákveðið langan tíma með skráð lögheimili gætir þú kannski farið að kjósa til sveitarstjórnar, nálgast það að verða ríkisborgari. (Forseti hringir.) Er þetta forsvaranlegt? Nei, það er það varla en ég er hræddur um að þetta sé eitthvað sem við verðum að gera eins og aðstæðurnar eru í dag.