154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

lögheimili og aðsetur o.fl.

542. mál
[21:13]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir áhugaverða ræðu. Það sem vekur athygli mína í þessu máli, fyrir utan mörg atriði, t.d. borgaraleg réttindi varðandi friðhelgi einkalífsins og það að slökkviliðið getur komið inn í húsnæði án dómsúrskurðar, það eru dæmi þess, meira að segja úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur, er að atvinnuhúsnæði er ekki bara atvinnuhúsnæði. Það eru mismunandi gæði á atvinnuhúsnæði. Við getum verið með bílskúr, við getum verið með verksmiðju, fjós, hlöðu, verkstæði o.s.frv. Þá kemur að þessu atriði sem lýtur að þessu: Er ekki ástæða til þess að það sé einhvers konar gæðaeftirlit með því atvinnuhúsnæði þar sem heimilt er að skrá sérstakt aðsetur sitt, að það sé einhvers konar gæðaeftirlitsstimpill á að það megi skrá sig í þetta atvinnuhúsnæði en ekki hitt? Þá erum við a.m.k. komin með einhvers konar lágmarkskröfur um að húsnæði sé hæft til þess að manneskjur geti búið þar. Það virðist ekki vera. Ég var að skoða t.d. skipulagsreglugerðina, byggingarreglugerð, og þar er t.d. fjallað um atvinnuhúsnæði fyrir búrekstur og annað slíkt. Samkvæmt þessu ákvæði má ætla það að einstaklingur geti skráð sérstakt aðsetur sitt í atvinnuhúsnæði sem er kannski fjós. Þá erum við komin ansi langt aftur í tímann og það er nánast ekki hægt að bjóða upp á þetta, finnst mér. Þetta sýnir að þetta er ekki ætlað Íslendingum, skulum hafa það í huga. Þetta ákvæði er ekki fyrir Íslendinga. (Forseti hringir.) Þetta er fyrir erlent vinnuafl sem hingað kemur, skráir sig í láglaunastörf og þetta er það sem við bjóðum upp á, að fá að skrá sig í atvinnuhúsnæði.