154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

heilbrigðisþjónusta o.fl.

225. mál
[21:29]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir) (P):

Herra forseti. Í frumvarpinu eru lagðar fram mjög flottar tillögur um breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu. Heilt yfir virðist vera samstaða meðal hagaðila og umsagnaraðila um að þörf sé á mörgum af þessum breytingum sem ráðuneytið leggur til í frumvarpinu. Ekki er þó eining um þær allar eða hvernig skuli staðið að þeim. Það eru því nokkur atriði sem minni hlutinn telur að þurfi að koma inn á og halda til haga.

Mikilvægt er að tryggja réttindi sjúklinga samhliða. Okkur barst góð umsókn þar sem lagt er til að slíkar kvartanir og sektir og kærur berist til landlæknis og hér sé mikilvægt að styðja réttindi sjúklinga samhliða. Ef embætti umboðsmanns sjúklinga væri hér á landi líkt og í öðrum norrænum ríkjum gætu slíkar sektir runnið til embættisins. Minni hlutinn tekur undir þessi sjónarmið.

Tillagan var fyrst lögð fram á 153. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Í greinargerð með tillögunni kemur fram að í núgildandi kerfi sé enginn sérstakur talsmaður sjúklinga ef upp koma deilumál eða önnur ágreiningsatriði innan heilbrigðiskerfisins. Sjúklingar geta beint kvörtunum til embættis landlæknis ef þeir telja að á þeim hafi verið brotið, en landlæknir er hlutlaus úrskurðaraðili sem hefur ekki það hlutverk að tala fyrir hagsmunum sjúklinga sérstaklega. Í slíkum málum þurfa sjúklingar því sjálfir að leita sér aðstoðar lögfræðinga sem getur verið mjög kostnaðarsamt og tímafrekt. Málsmeðferð er einnig þung í vöfum og tekur langan tíma, enda hefur embætti landlæknis ótal önnur verkefni á sinni könnu. Því telur flutningsfólk tillögunnar að til að réttindagæslu sjúklinga sé sinnt með sem bestum hætti fari best á því að stofna sérstakt embætti umboðsmanns sjúklinga sem gæti hagsmuna þeirra og skilji á milli þessara tveggja hópa til þess að geta verndað báða. Sjúklingar eru nefnilega eðli málsins samkvæmt í viðkvæmri stöðu. Við þurfum að geta tryggt að hagsmuna þeirra sé gætt og að þeim líði vel innan heilbrigðisstofnana landsins. Við viljum því benda á að velferðarnefnd og heilbrigðisráðuneyti gætu kannski skoðað þingsályktunartillögu um umboðsmann sjúklinga í samhengi við fyrirliggjandi frumvarp.

Einnig er gott að nefna að þetta bendir á stærri vanda í heilbrigðiskerfinu. Þó að í fyrirliggjandi frumvarpi séu lagðar til breytingar sem eru skref í rétta átt, og við fögnum því, er ljóst að starfsfólk heilbrigðisgeirans þarf enn að stunda vinnu sína undir miklu álagi líkt og greint er frá í greinargerð með frumvarpinu. Fjallað er um að orsakir langflestra alvarlegra atvika í heilbrigðisþjónustu séu ágallar í skipulagi, þar á meðal ófullnægjandi mönnun miðað við álag, umfang og eðli verkefna. Til dæmis geti of fáir verið á vakt og/eða reynslulítið fólk í framlínu, sem og samskipta- og skráningarvandamál þannig að mikilvægar upplýsingar komist ekki til skila. Vegna þessa er annars vegar lagt til í frumvarpinu að færa ábyrgð á einstökum atburðum frá einstaklingum yfir á stofnanir og hins vegar er lagt til að stofnunum og rekstraraðilum sem veita heilbrigðisþjónustu beri að skipuleggja starfsemi sína þannig að heilbrigðisstarfsmenn getið staðið við lögbundnar skyldur sínar. Seinna ákvæðið er útskýrt í greinargerð á þann hátt að það hafi í för með sér að veitendum heilbrigðisþjónustu sé skylt að sjá til þess að starfsemi þeirra sé mönnuð á fullnægjandi hátt með starfsfólki sem hafi nauðsynlega fagþekkingu og að tækjabúnaður sé viðunandi miðað við starfsemi.

Ljóst er að á meðan heilbrigðisstofnanir landsins eru undirmannaðar og vanfjármagnaðar mun alvarlegum atvikum í heilbrigðisþjónustu ekki fækka. Það er gríðarlega alvarlegt þar sem þessi atvik geta og hafa leitt til stórfellds líkamstjóns og dauðsfalla. Jákvætt er að í frumvarpinu sé ábyrgð á slíkum atvikum færð að mestu leyti yfir á kerfið fremur en starfsfólk en það breytir því ekki að sjúklingar verða enn fyrir þessum skaða. Í frumvarpinu er því í raun verið að byrja á öfugum enda. Minni hlutinn vill því beina þeim tilmælum til heilbrigðisráðuneytis að bregðast við þeirri alvarlegu stöðu sem uppi er í heilbrigðiskerfinu með auknu fjármagni. Það er áhrifaríkasta leiðin til að tryggja öryggi bæði starfsfólks og notenda heilbrigðisþjónustu.