154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

heilbrigðisþjónusta o.fl.

225. mál
[21:34]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég ætlaði nú ekki að hafa langa ræðu um þetta mál. Þetta er hið besta mál og ég styð það heils hugar. Ég vil líka taka undir nefndarálit 1. minni hluta nefndarinnar, að það er ýmislegt sem má bæta. Ég vil líka sérstaklega ítreka í sambandi við umboðsmann sjúklinga að það þarf að taka á því. Síðan þarf líka að taka á því að þarna er eiginlega verið að búa til nýjan aðila, stofnanir, en þær verða ábyrgar. Síðan er verið að koma öllu yfir á landlækni, sem ég er ekki hrifinn af. Ég tel að við þurfum að vera með sérrannsóknarnefnd eins og við erum með sérrannsóknarnefnd umferðarslysa — og það er bent á þetta líka. Við þurfum að koma á einhverri þannig hlutlausri rannsóknarnefnd vegna þess að bæði er landlæknir alveg með nóg á sinni könnu, fyrir utan að það getur valdið árekstrum að landlæknir, sem hefur bæði eftirlit og ýmis samskipti við viðkomandi stofnanir, sé líka að rannsaka svona tilfelli. Það væri miklu nær að sjá til þess að við værum með sérrannsóknarnefnd.

Það er imprað á þessu öllu og ég vona heitt og innilega að það verði líka tekið á því. Eins og hefur komið fram hjá lögfræðingum er mikil lagaflækja í þessu máli, sérstaklega í sambandi við refsirétt og annað. Það er einhvern veginn svo flókið mál að finna réttan flöt á því. Þess vegna verður að taka þetta mál upp aftur og finna betri lausn á því. Þetta er fín lausn til að byrja með og ég vona heitt og innilega að þetta gangi bara upp en síðan verði virkilega skoðað að koma á hlutlausri rannsóknarnefnd sem tekur á þessu máli og líka að sjá til þess að umboðsmanni sjúklinga verði komið á vegna þess að það veitir svo sannarlega ekki af því.