154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

kílómetragjald vegna notkunar hreinorku- og tengiltvinnbifreiða.

507. mál
[21:58]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Jafnvel þó að Samfylkingin sé sammála því að breyta þurfi tekjustofnum sem liggja til grundvallar ökutækjanotkun þá gagnrýnum við að vinna við útfærslu kerfisbreytinganna hafi ekki fengið nægilega umfjöllun í þingnefnd. Mælt var fyrir frumvarpi til laga um kílómetragjald vegna notkunar hreinorku- og tengiltvinnbifreiða þann 21. nóvember síðastliðinn. Réttum þremur vikum síðar er málið komið til afgreiðslu í þingsal. Miðað við umfang og mikilvægi málsins hefði þingið þurft mun lengri tíma til vinnslu þess og mörgum spurningum er enn ósvarað nú þegar málið er komið í 2. umræðu.

Um umfangsmikla kerfisbreytingu er að ræða sem mun hafa áhrif á alla ökutækjaeigendur. Á næsta ári á að koma á nýju tekjuöflunarkerfi í samgöngum með kílómetragjaldi á rafmagns-, vetnis-, og tengiltvinnbifreiðar. Ríkisstjórnin hefur síðan boðað að hún leggi fram á vorþingi frumvörp, annars vegar um sambærilegt gjald á bíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti og hins vegar um að kílómetragjaldið taki mið af þyngd ökutækja.

Athugasemdir komu fram um frumvarpið, m.a. um gæði og áreiðanleika mæla í bílum sem notast eigi við um eftirlit og skráningar, um jafnræði, viðurlög, kostnað og margt fleira. Þeim athugasemdum hefur ekki öllum verið svarað.

Ég vil taka undir með umsögn Náttúruverndarsamtaka Íslands sem benda á það sem segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands, með leyfi forseta: „Áfram verður unnið að því að breytingar á sköttum og gjöldum styðji við loftslagsmarkmið.“ Jafnframt benda náttúruverndarsamtökin á að losun hefur aukist hér á landi. Einnig er bent á að ekki sé gerð grein fyrir því á hvern hátt fyrirhugaðar breytingar á sköttum og gjöldum samkvæmt frumvarpinu eiga að styðja við loftslagsmarkmið ríkisstjórnarinnar.

Í greinargerð með frumvarpinu er rætt um að samhliða breytingum sem boðaðar eru í frumvarpinu verði gerðar breytingar á kolefnisgjaldi sem viðhaldi hvötum sem nauðsynlegir eru til orkuskipta. Kolefnisgjald hvetji almennt til aukinnar vitundar um akstur og getur þannig dregið úr umferð, tilheyrandi umferðartöfum og losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum.

Í greinargerðinni kemur þó skýrt fram að með gjaldtöku fyrir notkun rafbíla sé upp að nokkru marki dregið úr hvötum til orkuskipta. Náttúruverndarsamtökin benda á að aðferð stjórnvalda til orkuskipta í vegasamgöngum hafi verið að lækka gjöld á rafbíla. Þar af leiðandi hefur ríkissjóður orðið af miklum fjármunum og vilji nú fá tekjur af akstri þeirra sem keypt hafa sér rafbíla.

Ég skil það vel, forseti, að stjórnvöld vilji finna leiðir til gjaldtöku og að ríkissjóður þurfi fjármuni til að smíða og viðhalda vegum í landinu. En það sem skortir í tillöguna sem við ræðum nú er mat á áhrifum á orkuskipti og tal um kolefnisgjald til að viðhalda hvötum til orkuskipta er ekkert útfært, meira svona hjal um að það þurfi kolefnisgjald til að draga úr losun, eða líkt og fram kemur í umsögn náttúruverndarsamtakanna er engin grein gerð fyrir því hve mikið skal hækka kolefnisgjald til að koma í veg fyrir að kaup og akstur á orkufrekum bensín- og dísilbílum aukist um leið og kostnaður verður meiri við kaup og rekstur hreinorkubíla.

Ég tek undir það að það skortir tilfinnanlega skýringu og mat á því hvernig hækkun gjalda á hreinorkubílum stenst loftslagsmarkmið ríkisstjórnarinnar. Landsvirkjun er á svipuðum slóðum í umsögn sinni og bendir á að mikilvægt sé að hafa áfram í huga metnaðarfull áform stjórnvalda í loftslagsmálum ásamt alþjóðlegum skuldbindingum um árangur, svo sem vegna Parísarsáttmálans. Innlend orkuskipti eiga þar lykilþátt í árangri. Svo segir í umsögn Landsvirkjunar, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að hvatar til kaupa og notkunar umhverfisvænni bifreiða verði áfram til staðar. Mætti þar nefna áframhaldandi efnahagslega hvata fyrir kaupendur hreinorkubíla, kolefnisgjöld og fyrirhugað bann á nýskráningu bensín- og dísilbíla árið 2030. Tryggja þarf að kostnaðarmunur hvetji fólk til að kaupa og nota hreinorkubíla í stað bensín- og dísilbíla.

Að lokum hvetur Landsvirkjun til þess að kynna sem fyrst fyrirkomulag þeirra ívilnana sem munu taka við af virðisaukaskattsafslætti hreinorkubíla, sem fellur út um áramótin 2023/2024, ásamt útfærslu úthlutunar úr Orkusjóði.“ — Undir þá hvatningu tek ég.

Herra forseti. Þetta frumvarp hefði einnig þurft að meta út frá hugmyndum um réttlát græn umskipti. Réttlát umskipti í átt að kolefnishlutlausri framtíð eru brýnasta umhverfis-, samfélags-, og efnahagsmál samtímans. Með grænum umskiptum þarf að tryggja að aðgerðir í baráttunni gegn loftslagsbreytingum ýti ekki undir aukinn ójöfnuð í samfélaginu. Þess vegna þarf að samræma aðgerðir sem snerta málaflokkinn. Engin samfélagssátt næst um hröð orkuskipti og aðrar breytingar í atvinnu- og lifnaðarháttum nema velferðarsjónarmið séu höfð að leiðarljósi og tryggt að kostnaður falli ekki á tekjulægri hópa eða íbúa í dreifðum byggðum umfram aðra.

Herra forseti. Ég hef í stuttu máli farið yfir það sem við höfum við frumvarpið að athuga. Ég endurtek að við í Samfylkingunni erum sammála því að það þurfi að breyta tekjustofnum sem liggja til grundvallar ökutækjanotkun, en það þarf að vinna málið betur.