154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

kílómetragjald vegna notkunar hreinorku- og tengiltvinnbifreiða.

507. mál
[22:05]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Til að byrja með er eðlilegt að kvarta yfir því að breytingin sé komin til með stuttum fyrirvara. Það var ekki fyrr en í nóvember sem frumvarp datt inn með þessari útfærslu á kílómetragjaldinu og öðru. Áður en frumvarpið kom hérna til umræðu og í nefnd þá var ég almennt séð fylgjandi því að setja kílómetragjald. Það væri einfaldasta og sanngjarnasta leiðin og þess háttar. En eftir umfjöllunina hins vegar og umsagnir umsagnaraðila og gestakomur þá er ég búinn að skipta um skoðun. Það er af nokkrum ástæðum. Það er talað um að kílómetragjaldið sé svo rosalega sanngjarnt; þeir sem nota einfaldlega borga. Þeim mun meira sem fólk er að keyra á vegunum, því mun meira borgar það. Einfalt, ekki satt? Ekki alveg nefnilega. Þetta er tvívíddarvandamál a.m.k. og hin víddin er þyngd ökutækja.

Þegar talað er um notkun á vegum sem þurfa síðan viðhald og uppfærslur og þess háttar þá hafa í rauninni þyngri ökutæki miklu meiri áhrif á vegi heldur en léttari bifreiðar. Þyngri bifreiðar skemma vegina einfaldlega miklu hraðar, það er veldisvöxtur í því hversu miklu hraðar eftir því sem þær verða þyngri, gott ef það var ekki ferfalt, Vegagerðin var með eitthvert minnisblað um þetta í fjárlaganefnd fyrir nokkrum árum síðan. Kílómetragjald tekur tiltölulega lítið tillit til einmitt þessa. Og þó að það séu vissulega einhver þungaviðmið í öðrum gjöldum og svoleiðis, þá er ekki um það að ræða í kílómetragjaldi.

Þetta er atriði sem mér finnst að ætti að taka tillit til því að þegar allt kemur til alls þá er verið að tala um þetta sem í rauninni grunninn að tekjustofni þess að byggja upp og viðhalda vegakerfinu. Þegar það eru bílarnir sem eru stærri og þyngri, ég tala nú ekki um ef þeir eru á nagladekkjum eða einhverju þvíumlíku, sem skemma vegina meira þá ætti maður að tala um að þau sem skemma vegina meira ættu að borga meira, þótt þau noti þá ekkert endilega meira. En vissulega skemma þeir meira, þyngri bílar sem keyra meira. Og þá eru sanngirnisrökin um ekna kílómetra ekki svo augljós því sanngirnisrökin varðandi þyngdina eru þarna og vega þyngra, merkilegt nokk.

Þá komum við að öðrum hlut sem gerði það að verkum að ég skipti um skoðun. Það er skalavandamál, það að sjá og halda utan um kílómetrastöðu á öllum bílum landsins, ekki í fyrsta fasa núna þegar á að setja þetta á rafbíla og tengiltvinnbifreiðar heldur á næsta ári þegar þetta gengur yfir allar bifreiðar. Það er ekkert smáræðismál að allir þurfi að halda utan um kílómetrastöðu og svo þarf að skoða það þegar bílar fara í skoðun. Það kom skýrt fram fyrir nefndinni að það er ekki það sama að sjá kílómetrastöðuna á mælaborði og kílómetrastöðu á vél t.d., hvað þá ef það er búið að breyta bílum á einhvern hátt með stærri dekkjum eða eitthvað þess háttar án þess endilega að hafa farið í uppfærslu á mælunum. Það eru líka til aðferðir til að skrúfa niður kílómetrastöðu, Procar-málið er t.d. oft nefnt. Þannig að við erum í þeirri aðstöðu að kílómetramælirinn sem slíkur er ekkert hárnákvæmt tæki til þess að nota endilega sem grundvöll fyrir skattheimtu. Þá var nefnt að það er verið að nota þetta nú þegar í stærri bílum og þá er verið að nota löggildan mæli eins og við notum fyrir rafmagnið eða heita vatnið heima hjá okkur, þá erum við með löggildan mæli. En það er ekki í þessu tilviki. Það að setja löggildan mæli í hverja bifreið landsins væri bara galið. Fjöldi bíla, utanumhaldið utan um það, mismunandi tegundir bíla og alls konar svoleiðis — það er ákveðið inngrip í bifreiðarnar sem eru eins mismunandi og þær eru margar eiginlega, tegundirnar. Það er illa gerlegt. Umfangið á slíku verður í rauninni ákveðið bákn sem ég held að alla vega sumir hérna myndu ekki vilja byggja.

Ég myndi eiginlega frekar mæla með því sem þau sem komu frá Rafbílasambandi Íslands sögðu, að taka þetta bara beint í gegnum bifreiðagjaldið. Ef þú kaupir bíl þá ertu í rauninni með bifreiðagjaldinu að kaupa aðgang að vegakerfinu og bifreiðagjaldið stillist eftir þyngd einnig. Þá skiptir ekki alveg eins miklu máli hversu mikið viðkomandi keyrir, hvort hann keyri lítið eða mikið. Það er auðvitað smá vandkvæðum háð. Það er pínu ósanngjarnt gagnvart sérstaklega fólki með lægri tekjur af því að bifreiðagjaldið er flatur skattur, það er ekki alveg sanngjarnt og náttúrlega ekki gagnvart þeim sem keyra minna en þeir sem keyra meira. Ég held samt að það nálgist sanngirnina meira því það eru líka ákveðin sjónarmið í því að það er bara ákveðinn aðgangseyrir sem slíkur að eiga bifreið og hafa aðgang að vegakerfinu, á móti því að nota annars konar samgöngumáta. Það gæti hjálpað til við uppbyggingu annarra samgöngumáta líka þannig að fólk þyrfti ekki að vera á bíl. En staðan eins og hún er núna er sú að við þurfum á því að halda. Við viljum byggja upp samgöngukerfi þar sem valmöguleikinn eru til staðar. Eins og er er það flókið en eins og það yrði, vonandi, þá yrði það ekki eins flókið.

En þetta er staðan. Ég hélt að kílómetragjaldið væri málið en utanumhaldið, báknið utan um það, öll umsýslan, sanngirnin gagnvart þyngdinni — nei, þá er ég farinn að verða dálítið á móti því.