154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

kílómetragjald vegna notkunar hreinorku- og tengiltvinnbifreiða.

507. mál
[22:41]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Í þessu frumvarpi sem við erum að fara að greiða atkvæði um er lagt til að komið verði á fót nýju tekjuöflunarkerfi í samgöngum sem gengur út á það að bifreiðaeigendur borgi í samræmi við notkun sína á vegakerfinu. Hér er sem sagt verið að koma á kílómetragjaldi fyrir rafmagns,- vetnis- og tengiltvinnbíla sem hafa ekki verið að borga fyrir þetta á undanförnum árum. Þetta er fyrsta skrefið í breytingum sem gerðar verða á því hvernig verður greitt fyrir notkun á vegakerfinu. Það er þó nokkuð af breytingartillögum frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar sem við í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði teljum allar vera til bóta og til þess fallnar að kerfið renni ljúflega af stað, nú þegar við erum að koma á nýju kerfi.