154. löggjafarþing — 52. fundur,  16. des. 2023.

almennar íbúðir og húsnæðismál.

583. mál
[10:16]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst og fremst koma hingað til að taka undir með félögum mínum úr velferðarnefnd um mikilvægi þessa máls sem stuðlar að því að hægt sé að tryggja ákveðna úrlausn fyrir íbúðarhúsnæði fyrir tekjulægri Grindvíkinga. Það kom berlega í ljós í umfjöllun nefndarinnar, eins og við vissum raunar þegar við lögðum málið fram, að staða margra er mjög erfið og erfiðari heldur en maður getur gert sér í hugarlund, fyrir utan auðvitað bara það að lenda í áfallinu sem slíku þegar má segja að jörðin hrynji undan fótum fólks í orðsins fyllstu merkingu.

Hv. þm. Guðbrandur Einarsson fór vel yfir efni frumvarpsins til viðbótar við það sem kom fram í nefndaráliti og orðum framsögumanns en það er afskaplega mikilvægt að eiga orðið kerfi og framkvæmdaaðila eins og Bjarg íbúðafélag sem er tilbúið að stíga inn þegar svona aðstæður koma upp og ég vildi sérstaklega koma því á framfæri. Mér finnst svo mjög mikilvægt, eins og hv. formaður nefndarinnar, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, kom inn á, að velferðarnefnd haldi áfram að fylgjast með stöðunni, bæði varðandi húsnæðismálin en líka varðandi bara allt sem snýr að sálgæslu, áfallahjálp og utanumhaldi því við höfum séð það og upplifað að það sem verið er að vinna í þjónustumiðstöðinni og í tengslum við hana skiptir afskaplega miklu máli.

Að lokum vil ég nefna að í þessu ástandi, þar sem þarf að útvega íbúðir hratt, við getum ekki beðið eftir að það verði nýjar íbúðir byggðar til að koma þessu úrræði í framkvæmd, þá er mikilvægt að huga að öðrum leiðum til að byggja upp viðbótarhúsnæði fyrir þá sem þurfa á húsnæði að halda núna og við verðum að finna leiðir til þess að það sé hægt að byggja hratt og vel, eins og hefur verið nefnt með einingahús eða einhverjar aðrar fljótvirkar leiðir.