154. löggjafarþing — 52. fundur,  16. des. 2023.

viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

543. mál
[11:02]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Yfirlýsingar og mat fulltrúa flugfélaganna í umsögnum og fyrir nefndum hafa verið kúnstugar svo ekki sé fastar að orði kveðið vegna þess að þar var lýst gríðarlegum áhyggjum af því í hvað stefndi og því sem stæði til að gera, en að miðað við það sem þeim hefði verið sagt þá væri líklega best að samþykkja þetta í trausti þess að ríkisstjórnin myndi leysa málið í millitíðinni. Eins og ég nefndi í ræðu minni, frú forseti, þá held ég að almenningur geri sér nú grein fyrir því að þessi ríkisstjórn mun ekki leysa neitt í millitíðinni, hvorki á öðrum sviðum né þessu, kannski allra síst á þessu sviði í ljósi undirgefni þessarar ríkisstjórnar gagnvart Evrópusambandinu, sem er auðvitað margítrekuð. En hvað sem því líður þá er það auðvitað meginmarkmið flugfélaganna að viðhalda sinni samkeppnisstöðu og ef kostnaðaraukinn dreifist jafnt á alla, þ.e. önnur flugfélög í Evrópu og Ameríku líka, kostnaður farþega um allan heim, um alla Evrópu og öll bandaríki Norður-Ameríku, eykst jafn mikið, þá geta flugfélögin kannski sætt sig við það. En ég og við, tel ég, öll hér, erum fulltrúar almennings og við viljum ekki að allur almenningur sé á öllum sviðum látinn borga meira fyrir að fá að vera til þó að menn reyni að jafna einhverja samkeppnisstöðu milli fyrirtækjanna og öll fyrirtækin rukki fólk meira. (Forseti hringir.) Það er ekki okkar hlutverk að gera fyrirtækjunum kleift að rukka almenning meira. Okkar hlutverk á að vera að gera lífið betra og ódýrara, frú forseti.