154. löggjafarþing — 52. fundur,  16. des. 2023.

viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

543. mál
[11:07]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Hvers vegna værum við í gríðarlegum vandræðum ef við gæfum ekki eftir núna? Það er vegna þess að þessi ríkisstjórn ákvað að hoppa út í kviksyndið sem er stefna Evrópusambandsins í loftslagsmálum og sökkva fyrir vikið neðar og neðar þannig að þegar hent er til stjórnarinnar smáspotta þá er hún til í að gefa hvað sem er eftir fyrir það. Eru bresku flugfélögin í sömu stöðu? Nei, þau eru ekki sömu stöðu og íslensku flugfélögin sem þessari ríkisstjórn hefur tekist að hræða að því marki að þau bara vonast til þess að þetta klárist og eitthvað gerist í millitíðinni áður en hörmungarnar allar verða, sem hæstv. fjármálaráðherra núverandi var búin að vara okkur við hér og fleiri ráðherrar þessarar ríkisstjórnar. Og af því að hv. þingmaður talar um mikilvægi þess að ræða innihaldið og ekki frasa þá er ég auðvitað algjörlega sammála því að það er mikilvægt í öllum málum að ræða innihaldið, en þessu máli einmitt hefur verið pakkað inn í grænar umbúðir og ég myndi segja, frú forseti, eins og ég mun fara yfir í seinni ræðum, hreinum blekkingum beitt. Hv. þingmaður talar um tímalínu, mikilvægi þess að fara yfir tímalínuna í réttri röð, og ég mun gera það líka, mjög ítarlega, í þessari umræðu. En megintímalínan er þessi, frú forseti: Jafnvel ráðherrar þessarar ríkisstjórnar og þingmenn meiri hlutans komu hér upp og sögðu að þetta væri erfiðasta mál sem við hefðum staðið frammi fyrir frá EES nokkru sinni. Þetta væri hræðilegt mál og mætti aldrei samþykkja það. Svo samþykktu þau það með tveggja, þriggja ára fresti af því að afleiðingarnar koma í ljós í tíð einhverrar annarrar ríkisstjórnar.