154. löggjafarþing — 52. fundur,  16. des. 2023.

viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

543. mál
[13:50]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Ég var byrjaður að segja frá áhrifamatinu fyrir Ísland, áætluðum áhrifum af því að innleiða þetta regluverk. Þau áhrif eru metin gífurleg, með ótrúlegum samdrætti í flugi miðað við það sem ella hefði orðið. Hér kemur hins vegar líka fram hver áhrifin yrðu á flug í Evrópu, eins og Evrópusambandið ætlaði sér að ná. Ég ítreka það sem ég nefndi áðan, frú forseti, að hér er verið að miða við losunina en byggist það fyrst og fremst á fækkun flugferða, að það verði færri ferðir. Ég nefndi það að matið gerir ráð fyrir því að gangi þetta eftir verði flugferðir til og frá Íslandi eftir 26 ár 25% af því sem var 2019, fjórðungur af því sem var 2019 og innan við fimmtungur af því sem ella hefði orðið. En í Evrópu er sama tala 46%. Þar hefur flugið dregist saman um rúman helming frá 2019 en á Íslandi um 75%. Þetta er gífurlegur samdráttur í Evrópu líka ef þetta gengi eftir fyrir þessa grein en þó takmarkaður miðað við það sem á að leggja á Ísland í þessu, enda hefur þetta, eins og bent er á í þessum gögnum, hlutfallslega langmest áhrif á Ísland vegna legu landsins, vegna mikilvægis Íslands sem tengimiðstöðvar í Norður-Atlantshafi og vegna þess hvernig rukkað er fyrir flug út fyrir EES-svæðið. Að vísu segjast menn þá ætla að stefna á einhverjar breytingar hvað það varðar fyrir 2027 en eins og við höfum heyrt meira að segja hv. þingmenn meiri hlutans nefna þá er ekkert vitað almennilega hvernig það verður. Í besta falli getur það þó að einhverju leyti lagað samkeppnisstöðu flugfélaganna sín á milli, innbyrðis, en áhrifin fyrir neytendur verða engu minni. Fleiri flugfélög verða þá með hærri fargjöld, ekki bara þau íslensku með þau hæstu, heldur verða líka hærri gjöld hjá öðrum flugfélögum. Nema hvað, við vitum ekkert hvað verður með þetta í Bretlandi og í Bandaríkjunum. Mér finnst ólíklegt að þau lönd láti draga sig ofan í þennan pytt sem ríkisstjórnin og nú Alþingi reyna að hrinda okkur Íslendingum ofan í.

Ég hef nefnt það hversu alvarlegt þetta mál var að mati hæstv. ráðherra og ráðherrarnir töldu, a.m.k. í mars á þessu ári, að þeim væri sýndur skilningur, að Evrópusambandið væri að átta sig á þessari stöðu. Eins og segir í viðtali við Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, þáverandi utanríkisráðherra og núverandi hæstv. fjármálaráðherra:

„Enginn sem mótmælir áhrifum á Ísland.

„Það er enginn sem mótmælir lengur áhrifunum á Ísland sem er byggt á þeim gögnum sem við höfum lagt fram,“ segir Þórdís. Málið er afar stórt í sniðum þegar tekið er tillit til hagsmuna Íslands. Ekki síst fyrir tvær af þremur stærstu útflutningsstoðum Íslands. Fiskútflutning og ferðamennsku.“

Þar höfum við það. Þeir skildu þetta alveg. Það var enginn sem andmælti því að þetta hefði alveg sérstaklega mikil áhrif á Ísland en samt var ákveðið að gera ekkert með það í trausti þess að íslensk stjórnvöld myndu lúffa, sem þau og gerðu.

Frú forseti. Ég er ekki einu sinni byrjaður að ræða aðra anga þessa máls eins og siglingamálin, sem hv. þm. Bergþór Ólason gerði að nokkru leyti grein fyrir, en ég bið yður um að skrá mig aftur á mælendaskrá.