154. löggjafarþing — 52. fundur,  16. des. 2023.

viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

543. mál
[14:33]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Afsakið, frú forseti. Mér er svo mikið niðri fyrir vegna þessa máls að ég held að ég sé kominn með bæði hósta og hita, en það mun ekki stoppa mig í að ræða málið því að það er það stórt og mikilvægt og hefði auðvitað átt að fá miklu betri og meiri umfjöllun hér á Alþingi heldur en raunin er. Ég er búin að tala dálítið um flugmálið en sný mér nú um sinn að nýju gjöldunum á flutninga, siglingar.

Þetta mál, sem kom upp um sama leyti og ríkisstjórnin var að lúffa í flugmálinu, varðar gríðarlega hagsmuni landsmanna, augljóslega fyrirtækjanna sem eru í þessum rekstri, en þess vegna einnig hagsmuni fyrirtækjanna í landinu almennt og landsmanna allra þar sem við reiðum okkur mjög á viðskipti við útlönd og aukinn flutningskostnaður hefur strax mjög veruleg áhrif á verðlag á meira og minna öllum vörum, beint eða óbeint. Þess vegna var svo sláandi að sjá viðbrögð ráðherranna við þessu máli. Fyrrverandi utanríkisráðherra, hæstv. núverandi fjármálaráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, sagði í Ríkisútvarpinu 8. ágúst 2023 að áhrifin af þessu væru allt önnur og miklu minni heldur en áhrifin af fluggjöldunum. Svo ég vitni nú beint í frétt af Ríkisútvarpinu segir þar, með leyfi forseta:

„Áhrif nýrra mengunarkvóta ESB á skipaflutninga eru allt önnur og minni en í flugi, segir utanríkisráðherra. Skipaflotinn hafi hingað til ekkert greitt fyrir mengun og kvótarnir séu hluti af markmiðum í loftslagsmálum.“

Þarna er nánast verið að setja ofan í við þessi mikilvægu fyrirtæki, þ.e. fyrirtæki í flutningum, af því að þau hafa ekkert borgað nein refsigjöld til þessa, eins og það sé ótækt að það séu ekki allir að borga meira fyrir að vera til og standa í sínum rekstri. Svo segir þar:

„Íslensk stjórnvöld hafa verið meðvituð um nýjar reglur Evrópusambandsins um mengunarkvóta í sjóflutningum, segir utanríkisráðherra, og bendir á að núna greiði skipaflotinn ekkert fyrir mengun.“

— Bíddu nú við, þarna er byrjað aftur á sama stað. Ég byrja á næstu málsgrein þar sem sagt er frá því að Evrópusambandið hafi nýverið samþykkt þessar reglur og ráðherrann, eins og ég nefndi áðan, búin að gera sér grein fyrir því að sögn. Við vorum reyndar ekkert alveg vissir, við þingmenn Miðflokksins, um að ríkisstjórnin hefði haft hugmynd um þetta þegar málið kom óvænt upp því að hún hafði a.m.k. ekki haft fyrir því að vara okkur við því hvað væri þarna í vændum. Fyrir vikið höfum við þau grunuð um að hafa verið tekin í bólinu með þetta. Það er ekkert víst að það sé rétt. En hafi þau fylgst svona vel með þessu þá hefði maður nú talið að þau hefðu gert meira í málinu því að þegar þetta kemur upp þá segir hver ráðherrann á eftir öðrum: Við ætlum ekki einu sinni að sækja um undanþágur. Svo er þeim bent á að þetta regluverk gerði beinlínis ráð fyrir undanþágum fyrir lönd eins og Ísland. Ég held að Ísland hafi tikkað í öll boxin sem nefnd voru sem ástæður undanþágna frá þessu. En þá bregðast ráðherrarnir þannig við, hafandi annaðhvort misst af málinu eða verið að segja rétt frá þegar þeir sögðust vera búnir að fylgjast með þessu, með því að segja: Við viljum ekki einu sinni þessar undanþágur. Og svo koma bara svona athugasemdir um að allir eigi nú að taka þátt í þessu og við getum ekki látið okkar eftir liggja, eins og að við séum að fara að leysa þessu loftslagsmál með því að leggja sérstök aukagjöld á Íslendinga, flutninga til og frá landinu, umfram það sem við hefðum þurft að gera, ef við bara tökum þetta alla leið og finnum nýjar og nýjar leiðir til að gjaldpína almenning og fyrirtækin, þá sé Ísland líklega bara betra en allir aðrir í loftslagsmálunum (Forseti hringir.) og leysi málið fyrir heiminn.

Ég þarf að fara nánar út í viðbrögð ráðherranna af því að margt sem þeir sögðu var svo sláandi, frú forseti, (Forseti hringir.) og þess vegna bið ég um að vera settur aftur á mælendaskrá.