154. löggjafarþing — 52. fundur,  16. des. 2023.

viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

543. mál
[16:51]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Þingflokkur Pírata telur ETS-kerfið gríðarlega mikilvægan þátt í loftslagsstefnu Íslands, sér í lagi þegar ríkisstjórnin grípur sjálf ekki til nógu róttækra aðgerða til að ná árangri í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Við treystum okkur hins vegar ekki til að styðja þessi lög vegna þess að hvorki nefndin né umsagnaraðilar fengu nógu mikið ráðrúm til að rýna málið í þaula og enn standa nokkur álitaefni út af. Eftir að frumvarpið var afgreitt úr nefnd t.d. þá kom í ljós að það vantaði reglugerðarheimild til að væri hægt að framkvæma endurgjaldslausa úthlutun losunarheimilda til flugrekenda, grundvöllur þessa frumvarps. Það vantaði reglugerð til að framkvæma þetta. Þetta uppgötvaðist nánast fyrir tilviljun, bara vegna þess að fulltrúi Pírata rak augun í það. Hvað ætli leynist margar villur í viðbót í þessu máli? Hvernig virkar síðan þetta bráðabirgðaákvæði yfir höfuð? Hvað gerist ef sótt er um fleiri heimildir en til ráðstöfunar eru? Hvernig á þá að skipta kökunni á milli flugrekenda? Það eru engar leiðbeiningar í lagatexta um það hvernig á að skerða úthlutun en (Forseti hringir.) þannig skerðing þarf að byggja á skýrum fyrirmælum þannig að sé hægt að átta sig á umfangi hennar. Þetta eru tvö lítil dæmi um það (Forseti hringir.) hvers vegna þetta mál er ekki nógu sterkt til þess að við í Pírötum gefum því það græna ljós sem við svo gjarnan myndum vilja.