154. löggjafarþing — 56. fundur,  22. jan. 2024.

Framhaldsfundir Alþingis.

[15:03]
Horfa

Forseti (Birgir Ármannsson):

Ég þakka forsætisráðherra góð orð og býð hv. alþingismenn velkomna til starfa á þeim og starfsliði Alþingis óska ég gleðilegs árs og þakka gott samstarf á liðnu ári.

Við höfum öll fylgst með því hvernig jarðskjálftar og eldgos hafa leikið byggðina í Grindavík og samfélag Grindvíkinga að undanförnu. Hörmulegt slys sem þar varð minnti okkur á að þar leynast hættur við hvert fótmál og mikil óvissa ríkir um framhaldið. Ég tel mig geta fullyrt hér að Grindvíkingar eiga stuðning okkar vísan og vart getur hjá því farið að viðbrögð við náttúruhamförunum í og við Grindavík setja mark sitt á störf Alþingis á næstu dögum og vikum.

Um áramótin varð ljóst að Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hyggst ekki gegna því embætti lengur en til loka kjörtímabilsins. Forsetakosningar munu því fara fram þann 1. júní. Forsætisnefnd Alþingis hefur af þeim sökum gert breytingu á starfsáætlun þingsins sem í meginatriðum felst í því að ekki verði þingfundir í 21. og 22. viku ársins og áætluð þingfrestun færist aftur um viku, verður 14. júní í stað 7. júní. Með þessari ráðstöfun er komið til móts við það sjónarmið að eðlilegt sé að forsetakjörið njóti athygli fjölmiðla og almennings í aðdraganda þess og frambjóðendur fái næg tækifæri til að kynna sig fyrir kjósendum.

Á þjóðhátíðardeginum í sumar verða liðin 80 ár frá því lýðveldið Ísland var stofnað á hátíðarfundi Alþingis á Þingvöllum. Forsætisráðuneytið hefur haft forgöngu um ýmsa viðburði vegna þess og kynnir þá á vefsíðu Stjórnarráðs Íslands og tekur Alþingi þátt í undirbúningi sumra þeirra viðburða. Einn þessara viðburða hefur þegar farið fram, málþing um Alþingiskafla stjórnarskrárinnar, sem haldið var 5. janúar, en þann dag, árið 1874 fyrir 150 árum, var fyrsta stjórnarskrá Íslands staðfest. Sumarið 1974 héldu Íslendingar sína fyrstu þjóðhátíð þar sem fagnað var 1000 ára afmæli byggðar í landinu.

Þingmenn og starfslið Alþingis hafa nú komið sér fyrir í Smiðju, hinu nýja húsi þingsins, og starfsemin þar er og var að komast í hið hversdagslega form fjölmenns vinnustaðar. Nefndir eru farnar að halda fundi sína í fundarsölum Smiðju og það hefur gengið með ágætum þótt auðvitað verði vart við einhverja hnökra í byrjun.

Lokafrágangur hússins stendur enn yfir en honum mun ljúka á fyrri hluta þessa árs og þá er fyrirhugað að vígja húsið með formlegum hætti. Eins og jafnan áður þá mun ekki skorta viðfangsefni hér á Alþingi á vetrarþinginu sem nú er að hefjast og mikilvægt að þau störf sem fram undan eru gangi greitt og vel fyrir sig.

Um leið og ég ítreka kveðjur mínar til alþingismanna þá óska ég okkur þess að vel verði staðið að verki í því starfi sem fram undan er á síðari hluta þessa löggjafarþings.