154. löggjafarþing — 56. fundur,  22. jan. 2024.

Staða mála varðandi Grindavík, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:29]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Byggðin í landinu okkar grundvallast á sambýli okkar við náttúruöflin. Okkur hefur tekist að beisla þau á ýmsum sviðum og hagnýta til þess að byggja upp þetta samfélag okkar, eitt hið auðugasta og þróaðasta á jarðarkringlunni. En þegar öllu er á botninn hvolft þá geta þessi sömu gjöfulu náttúruöfl hrifsað af okkur öll völd þegar þeim sýnist. Það er náttúran sem ræður og við hana verður ekki samið og ekki getum við þekkt til hlítar allar hennar fyrirætlanir.

Við búum við óvissu og við margt verður ekki ráðið, en hins vegar ráðum við því hvernig við bregðumst við duttlungum náttúrunnar. Þar kemur inn skylda okkar allra sem Íslendinga og förum með þá ábyrgð á framtíð landsins. Staða Íslands sem frjálst fjölbreytt og kröftugt samfélag þar sem lífskjör eru með því besta sem gerist í heiminum er vitnisburður um að okkur hafi hingað til tekist nokkuð vel til. Velgengni okkar hefur alltaf byggt á því að við hjálpum hvert öðru þegar náttúran sýnir sínar verstu hliðar, að við stöndum saman þegar á móti blæs.

Fyrir hartnær 51 ári síðan, eða sex dögum eftir að 1.600 metra löng gossprunga opnaðist fyrirvaralaust í túnfætinum hjá Vestmannaeyingum voru umræður í þessum sal um neyðarráðstafanir. Þá sagðist hv. þáverandi þingmaður, Jóhann Hafstein, með leyfi forseta, heita „á Íslendinga alla að mæta þeirri ógn, sem að höndum hefur borið í Vestmannaeyjum, með þegnskap og samhjálp“. Þessi orð eiga jafn vel við í dag og þá. Við stöndum með Grindvíkingum með því að finna til ábyrgðar og axla hana auk þess að rétta fram hjálparhönd í þeim erfiðu aðstæðum sem þeir takast á við með æðruleysi, hugrekki og vonina að vopni. Fólk um allt land þar sem náttúruöflin eru hluti af daglegu lífi á að geta treyst því að þjóðin öll komi að úrlausn mála þegar slík áföll verða með þegnskap og samhjálp.

Undanfarna daga og vikur höfum við heyrt í Grindvíkingum og hlustað á óskir þeirra, framtíðarvonir og fyrirætlanir. Það sem við heyrum er að vonir og væntingar til framtíðarinnar eru misjafnar og engin ein leið hentar þeim öllum. Með það að leiðarljósi viljum við bjóða Grindvíkingum upp á val og mikilvægast af öllu er að við reynum að hrifsa til baka af náttúrunni eins mikið vald og við getum þannig að Grindvíkingar sjálfir fái tækifæri til að velja sínar leiðir og stýra sínum örlögum, að halda áfram. Stærsta óvissumálið sem Grindvíkingar standa frammi fyrir snýr að íbúðarhúsnæði sem þau hafa fjárfest í en geta ekki búið í vegna aðstæðna. Þetta eru heimili fólks, heimili sem eru griðastaður okkar allra. Til að þau geti byrjað að undirbúa nýja og öruggari framtíð verður að eyða þessari óvissu eins og staðan er núna. Því miður er enginn augljós kostur í stöðunni fyrir Grindvíkinga eins og við myndum helst vilja. Óvissan er einfaldlega enn sem komið er á öðrum skala núna.

Ég veit að tíminn er lengi að líða þessa daga þegar áfallið er í hámarki og óvissan er mikil. En þau spor sem við stígum þurfa að standast skoðun til lengri tíma og það skiptir máli að Grindvíkingar viti að þau fái aðstoð og við munum eiga við þau bæði frekara samráð og fylgja áfram þeirri hugmyndafræði að saman leitum við leiða sem eru bæði sanngjarnar og skynsamlegar. Að því marki er mikilvægt sömuleiðis að við hér sem höfum lýðræðislegt umboð til setu bæði sem löggjafarvald og fjárveitingavald komum að þessu verkefni saman, enda er þetta verkefni af þeirri stærðargráðu, ekki bara efnahagslega heldur samfélagslega, að það er heilbrigðismerki, skynsamlegt og eðlilegt, að sjónarmið þvert á flokka fái að komast að og verði hluti af þeirri vinnu sem fram undan er vegna þess að þetta er ekki verkefni til skamms tíma heldur langs tíma. Það skiptir máli að við höldum okkur við það öll að hverjar sem útfærslurnar og leiðirnar verða að við gerum hvað við getum til að lágmarka neikvæð áhrif á ríkissjóð, peningastefnu og aðra þætti vegna þess að þannig erum við sannarlega bæði að hjálpa Grindvíkingum og okkur öllum.

Umfang þessara aðgerða gæti nefnilega numið tugum milljarða króna og verkefni næstu daga er að útfæra hvernig við fjármögnum svo stórt verkefni, en að því munu koma Náttúruhamfaratrygging Íslands, lánveitendur á svæðinu og ríkissjóður. Við erum meðvituð um möguleg neikvæð hliðaráhrif og við verðum að gera hvað við getum til að lágmarka þau. Hluti af því að standa með Grindvíkingum er einfaldlega að lágmarka slík áhrif. Það þýðir auknar byrðar á okkur öll, enda er tjónið til staðar líka þegar ríkissjóði er beitt. Verkefnið er af þeirri stærðargráðu að allir armar hagstjórnarinnar, aðilar vinnumarkaðarins, peningastefna, ríkisfjármál þurfa að axla ábyrgð. Þannig stöndum við raunverulega saman.

Í mínum huga hefur alltaf verið algerlega skýrt að stjórnvöld munu hjálpa Grindvíkingum. Ég held að við höfum öll vonað að það væri aðstoð í gegnum tímabundnar hremmingar en nú hefur einfaldlega eðlisbreyting orðið þar á og það hefur orðið skýrara með hverri vikunni að við getum ekki treyst því að svo verði. Með því að gefa Grindvíkingum kost á að losna undan skuldbindingum og veita aðstoð við að tryggja þeim húsnæði skapast svigrúm fyrir þau til að meta eigin hug og taka ákvarðanir á sínum forsendum. Markmiðið með því er að gera Grindvíkingum kleift að taka ákvarðanir fyrir sig og sína fjölskyldu um framtíðina, að þau sjálf ráði örlögum sínum.