154. löggjafarþing — 56. fundur,  22. jan. 2024.

Staða mála varðandi Grindavík, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:36]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Náttúran er við völd á Reykjanesi og í Grindavík og skapar okkur mikla óvissu. Ég og Grindvíkingar allir erum mjög þakklát Alþingi Íslendinga, þjóðinni allri og stjórnvöldum fyrir þann samhug sem okkur er sýndur. Það eru margir í þessu samfélagi sem finnst þeir oft þurfa að kljást við pólitíkina en svo hefur það ekki verið fyrir okkur Grindvíkinga og fyrir það erum við þakklát. Ég er ánægður með þann tón sem hefur verið í þessari umræðu hér í dag, að sá vilji sé allur til staðar enn þá að við sameinumst um þetta stóra verkefni sem hefur vissulega gríðarleg áhrif á okkur í Grindavík sem og á marga aðra út fyrir Grindavík og um landið allt. Gríðarlega mikið af störfunum í Grindavík eru nefnilega unnin af fólki utan Grindavíkur, þannig að þetta hefur áhrif á störf ansi margra. Það eru margir sem vinna líka við að þjónusta fyrirtækin sem eru í Grindavík, þannig að þetta hefur áhrif svo víða.

Þessi mikli kostnaður sem er fallinn til, sem er svolítið óljós enn þá, hann mun hafa áhrif inn í þau stóru verkefni sem bíða okkar hér. Þetta er stórt verkefni sem við þurfum að takast á við saman. Það hefur verið gert hingað til og fyrir það erum við þakklát. Sá skýri tónn sem kom fram á fjölmennum íbúafundi í síðustu viku, við erum líka þakklát fyrir það að í framhaldi af honum eru komin skýr svör um að mæta eigi vilja Grindvíkinga um það að fá að hjálpa sér sjálfir með því að losa á einn eða annan hátt um eignarhald í eignum þeirra sem eiga íbúðarhúsnæði í Grindavík svo að þeir geti byrjað nýtt upphaf, fundið nýja festu á þeim óvissutímum sem eru núna.

Það er gríðarlega mikilvægt að þetta nái fram að ganga hratt og örugglega, eins og hér hefur komið fram, en við sýnum því fullan skilning þegar við erum búin að fá þessa vissu, að það eigi að losa um þetta eignarhald og við getum byrjað nýtt upphaf, að það taki einhvern tíma að útfæra þetta og útfæra það einmitt þannig að það henti okkar aðstæðum betur, að við höfum eitthvert val um það hvernig þetta verður framkvæmt. Og það er vel.

Þessi lausn hefur oft verið rædd og eins að það myndi verða til þess að fólk myndi festa rætur annars staðar og yfirgefa samfélagið. Ég hef alltaf litið svo á að þessi lausn, að hjálpa fólki að fá nýtt upphaf, sýni að þjóðin og stjórnvöld grípa fólkið í svona aðstæðum og því treysti það sér til þess að koma aftur í þetta samfélag þegar allt er yfirstaðið. Ef við hefðum þurft að standa lengi í stappi við stjórnvöld um þetta stóra mál, hvernig færi með eignirnar og hvort við gætum byrjað upp á nýtt og hvort við hefðum val um okkar lausnir, þá myndu margir örugglega hugsa sig tvisvar um áður en þeir færu aftur til baka í slíkar aðstæður. Þetta skiptir því gríðarlega miklu máli. Þarna er einnig búið að svara stóru spurningu íbúanna þó að útfærslan sé eftir og gangi vonandi vel. En til þess að samfélagið komist hraðar til baka þegar þessum óvissutíminn sleppir þá verðum við núna að setja fókusinn á það að aðstoða það atvinnulíf sem getur verið áfram í Grindavík miðað við núverandi aðstæður og það sem kemur, að það nái að starfa áfram. Því meira atvinnulíf sem getur starfað og verið virkt, því fyrr byggist samfélagið aftur upp í Grindavík. Hvort það verður á nýju bæjarstæði eða að hluta til á þessu og að hluta til á nýjum stað, það verður framtíðin að leiða í ljós.

Það þarf líka að hafa í huga að þegar við erum að ræða þessar aðgerðir og þennan tíma sem þetta tekur allt saman þá er einn dagur í lífi Grindvíkinga eins og ein vika hjá öðrum — eða kannski er nær að segja að einn dagur hjá venjulegu fólki sé eins og ein vika hjá okkur því að þetta tekur langan tíma eftir fjögurra ára (Forseti hringir.) óvissu. Við erum því þakklát þeim fjölmörgu vinnuhópum og öðrum sem hafa lagt okkur lið. (Forseti hringir.) Við erum þakklát fyrir þá miklu samkennd. Við trúum því að nú fari óvissunni að linna hvað þetta varðar og að við getum farið að byrja nýtt upphaf meðan við bíðum eftir að náttúran láti af völdum.