154. löggjafarþing — 56. fundur,  22. jan. 2024.

valdheimildir ríkissáttasemjara og kröfur aðila vinnumarkaðarins.

[17:14]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Af því að. þingmaður segir hér: Það á ekki bara að verða við kröfum í blindni, þá er enginn að tala um það. Þess vegna nefndi ég þær umræður sem hafa verið í þjóðhagsráði. Ég hef haldið því mjög skýrt til haga að við erum reiðubúin að greiða fyrir samningum sem við metum að þjóni því markmiði að styðja við verðstöðugleika og skapi forsendur til að lækka vexti. Margt af því sem fulltrúar breiðfylkingarinnar hafa lagt fram finnst mér gott. Margt af því sem fulltrúar opinberu heildarsamtakanna finnst mér gott. En það er ekki þar með sagt að við þurfum ekki að fara yfir það, meta það, rýna það og máta það inn í þjóðhagslegt samhengi. Og af því að hv. þingmaður nefndi hér kvennastéttir í fyrri spurningu langar mig að koma því að að nú erum við að fá niðurstöður úr verkefni sem við höfum verið að leiða sameiginlega, forsætis- og fjármálaráðuneytið, um virðismat starfa. Ég vona svo sannarlega að það sé orðið lykilatriði þegar farið verður líka í samningaviðræður á opinberum markaði. Það eru opinberar stofnanir sem hafa verið að leiða þar ákveðin tilraunaverkefni og ég vona svo sannarlega að það muni hafa áhrif út á almenna vinnumarkaðinn (Forseti hringir.) því að ég held að þarna séu að fæðast ákveðin tól til þess (Forseti hringir.) sannanlega að ná markmiðum okkar um að útrýma launamun kynjanna. — Afsakið, frú forseti, fyrir þessar 18 sekúndur.