154. löggjafarþing — 56. fundur,  22. jan. 2024.

mótvægisaðgerðir á húsnæðismarkaði vegna ástandsins í Grindavík.

[17:33]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka upp þessi mikilvægu mál. Það er rétt hjá hv. þingmanni að það er mikilvægt að þessi kerfi okkar, leyfisferlin, séu skilvirk, ekki síst í aðstæðum sem við erum í í dag. Af þeim ástæðum, vegna þess að þau hafa alls ekki verið það, þá höfum við á þessu kjörtímabili verið að leggja áherslu á alls kyns hluti eins og að búa til einn feril leyfisveitinga, koma öllu í eina gátt og búa þannig til skilvirkni. Við erum á fullu í að endurskoða byggingarreglugerðina og eru 11 hópar þar að störfum. Vinnan gengur mjög vel. Byrjað er að taka saman það sem þar kemur fram og eins fljótt og hægt verður verður farið að innleiða þær breytingar þegar þar að kemur. Það er hins vegar mikilvægt að þær séu gerðar svolítið á samræmdan hátt þannig að þetta sé ekki bútasaumur heldur heildarendurskoðun eins og til stóð.

Varðandi það hvort til greina komi að fara í einhverjar styttingar eða undanþágur eða eitthvað slíkt við þessar aðstæður þá var það m.a. vinna sem spretthópur á vegum ráðuneytisins var með vegna innflutnings eða skoðunar á húseiningum, sem sagt tilbúnum húsum. Það var mat hans að þetta ferli skipulags og byggingarleyfis væri í sjálfu sér ásættanlegt svo fremi að allt annað gengi upp, þ.e. að til væru byggingarhæfar lóðir og slíkt, það væri hægt að vinna þetta saman og í raun og veru ekki mikill sparnaður að reyna að stytta það kerfi. Ég held hins vegar að það sé mikilvægt að halda áfram að skoða það hvort við getum náð þarna ávinningi. Það er vissulega þannig að til þess að auka framboð á húsnæðismarkaði er þetta einn þáttur. Hann er mikilvægur en það eru fjölmargir aðrir sem ég ætla kannski að reyna að koma inn á í seinna andsvari.