154. löggjafarþing — 56. fundur,  22. jan. 2024.

háskólar.

24. mál
[17:43]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fyrir góða framsögu. Nokkur atriði sem mig langaði að spyrjast fyrir um varðandi það hvernig þetta er hugsað. Nú er það skilningur minn að einhverjir þeir sem hafa tekið diplómapróf eða viðbótarpróf á meistarastigi eins og það var skilgreint áður, sem 30 einingar, hafi lent í því þegar þeir koma erlendis eða eru t.d. sækja um störf erlendis eða eitthvað slíkt eða háskóla að þá sé það ekki tekið sem gilt vegna þess að það eru einungis 30 einingar en ekki 60. Nú hafa þessir aðilar fengið útgefið vottorð eða diplómu um það að þeir hafi lokið þessu námi, hafa jafnvel til viðbótar því lokið 30 einingum. Er hugsunin sú að þeir sem t.d. höfðu áður lokið 30 eininga viðbótarprófi á meistarastigi, ég hef t.d. gert það sjálfur, en fá það ekki metið, geti í rauninni fengið það endurmetið upp í nýja viðbótarprófið á meistarastigi sem er 60 einingar, þegar viðkomandi hefur lokið þeim 60 einingum? Þetta var fyrsta spurningin.