154. löggjafarþing — 56. fundur,  22. jan. 2024.

endurnot opinberra upplýsinga.

35. mál
[18:20]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fyrir svarið og ánægjulegt að heyra að hún muni þrýsta á það að rannsóknargögn verði gerð aðgengileg fyrir frumkvöðla og aðra. Mig langaði í seinna andsvarinu að spyrja aðeins út í það, ekki endilega hvað stofnanir hins opinbera séu duglegar að gera gögn aðgengileg heldur ríkið sjálft. Hæstv. ráðherra nefndi hér áðan opingogn.is og sannleikurinn er sá að þar inni er bara varla neitt af gögnum nema frá Reykjavíkurborg. Ef ég vil hins vegar vita eitthvað um einhverja hluti hjá ríkinu þá eru ansi fá gagnasöfn þarna inni. Ég hef talað við aðila sem t.d. hafa sagt: Hvernig væri nú t.d. að fjárútgjöld ríkisins, ópersónumerkt, væru gerð aðgengileg? Þá gæti kannski einhver frumkvöðullinn eða vísindamaðurinn komið og sagt okkur hvernig við gætum sparað heilmikið í ríkisrekstrinum og hvar við gætum fjárfest á góðan máta. En nei, þessi gögn eru ekki aðgengileg, það er varla að fjárlagafrumvarpið sé einu sinni aðgengilegt, það er bara á pappírsformi. Þessu þurfum við öllu að breyta og þess vegna langar mig að heyra frá hæstv. ráðherra hvort hún telji að ríkið sjálft og þá ráðuneytin sérstaklega muni verða duglegri við það að gera gögnin sem þau vinna með og þau búa til aðgengileg.