154. löggjafarþing — 56. fundur,  22. jan. 2024.

endurnot opinberra upplýsinga.

35. mál
[18:25]
Horfa

Magnús Árni Skjöld Magnússon (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er gott evrópskt mál sem við erum að fjalla um hérna og er ánægjulegt að sjá að það sé verið að greiða fyrir aðgangi þeirra aðila sem vilja nota opinber gögn að þeim gögnum. Mig langar til þess að snúa umræðunni aðeins að háskólarannsóknum. Ég veit að háskólafólk notar mikið gögn til þess að vinna sínar rannsóknir og treystir þar á góðan aðgang að gögnum eins og þeim sem verið er að tala um hér. Það er auðvitað bagalegt þegar vefsíður eins og hafa verið nefndar hér í dag svona deyja og hætta að vera uppfærðar. En ég heyri það á máli hæstv. ráðherra að það stendur til að gera gangskör í þeim efnum. Mig langar til þess að spyrja annars vegar um aðgang að kannski öðrum gögnum en þeim sem verða til í opinberum stofnunum en eru engu að síður á sviði opinberra aðila, þ.e. gögn hinna opinberu háskóla: Er gert ráð fyrir því að opinberir háskólar séu inni í þessari púllíu? Í öðru lagi, þó svo að það eigi auðvitað engan veginn við um gögn eins og hafa verið nefnd hér eins og veðurfræðigögn og jarðskjálftagögn og önnur slík, en það á engu að síður við um ýmis gögn sem snerta samfélagið, hvort gert sé ráð fyrir því að það verði kynjagreining á þeim gögnum og að kyngreindar upplýsingar komi fram í þeim gögnum sem verða gerð aðgengileg í samræmi við jafnréttismarkmið.