154. löggjafarþing — 57. fundur,  23. jan. 2024.

Störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Við erum væntanlega öll á þeirri skoðun að eitt grunnskilyrði farsællar landsstjórnar sé samhent ríkisstjórn. Það liggur í hlutarins eðli að gera þarf málamiðlanir milli ólíkra sjónarmiða en ef sameinast er um skýr markmið er það styrkur ekki veikleiki. Það sem af er þessu kjörtímabili höfum við ítrekað orðið vitni að því við ríkisstjórnarborðið að stjórnarflokkarnir ná hvorki saman um skýr markmið né að miðla málum þannig að farsælt sé fyrir landsmenn. Þetta hefur birst okkur mjög skýrt síðustu daga. Við sjáum þetta víða. Það er ekki samstaða um ríkisfjármálin, orkunýtingu, stjórn heilbrigðismála, útlendingamál eða sjávarútvegs- og auðlindamál. Og þetta er ekki tæmandi upptalning. Við sjáum það mjög skýrt að þessi ríkisstjórn er komin á endastöð. Hún hangir saman á tvennu. Hún lafir vegna þess að það er erfitt að gefa eftir valdastóla, jafnvel þótt völdunum fylgi ekkert erindi, og hún hangir líka saman á óttanum við kosningar, óttanum við að leggja erindisleysi síðustu ára í dóm kjósenda.

Það blasa risavaxin verkefni við. Aðgerðir fyrir Grindvíkinga eru bráðnauðsynlegar og sjálfsagðar en þær verða eðlilega kostnaðarsamar og það er mikill útgjaldaþrýstingur á ríkissjóð vegna kjarasamninga. Að líkindum er þetta kostnaður upp á 150–200 milljarða fyrir ríkissjóð. Sitjandi ríkisstjórn getur ekki mætt þessum áskorunum, ekki vegna þess að það skorti viljann til að gera vel, við viljum öll gera vel, heldur vegna þess að í farsælli landsstjórn þarf að ná saman um málamiðlanir til þess að ná markmiðinu. Ef markmiðið er að koma Grindvíkingum til hjálpar og liðka fyrir kjarasamningum þá þarf m.a. að auka orkuöflun, breyta gjaldtöku fyrir afnot af auðlindum og gera umbætur í heilbrigðiskerfinu, svo að fátt eitt sé nefnt.

Samsetningin við ríkisstjórnarborðið stendur í vegi fyrir þessu öllu, bæði vegna þess að það er ekki samstaða um að ganga í þessi verk og ekki síður vegna þess að þessir flokkar ná aldrei saman um nauðsynlegar aðhaldsaðgerðir til að fjármagna mikil og ný útgjöld, sem er líka lykilatriði þegar kemur að því að berjast gegn vöxtunum og verðbólgunni. Það er orðið tímabært að núverandi stjórnarflokkar horfist í augu við eigin erindisleysi. Atburðir síðustu daga segja okkur það mjög skýrt.