154. löggjafarþing — 57. fundur,  23. jan. 2024.

Störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Við lifum á tímum mikilla átaka í stjórnmálum, ekki bara á milli stjórnar og stjórnarandstöðu heldur einnig innan stjórnarflokkanna. Það er freistandi fyrir okkur í stjórnarandstöðu að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að fella ríkisstjórnina, enda hún fyrir löngu komin á síðasta söludag. Það er líka frest freistandi fyrir ólátabelgina innan stjórnarflokkanna að láta öllum illum látum í von um að ofbjóða hinum flokkunum. Nú er hins vegar ástandið í þjóðfélaginu þannig að það hefur aldrei verið mikilvægara að grafa stríðsaxir og róa bátnum í sömu átt. Við þurfum að sameinast um það sameiginlega markmið okkar sem þjóðar að bregðast við þeim hamförum sem Grindvíkingar hafa orðið fyrir. Í því þverpólitíska samstarfi sem boðað hefur verið til er nauðsynlegt að við skiljum pólitísk átök eftir um leið og umræður um Grindavík byrja. Við þurfum að hlusta á hvert annað og stjórnvöld þurfa að passa að nýta þá þekkingu og reynslu sem finna má innan stjórnarandstöðunnar og þann drifkraft sem ræður ríkjum hjá okkur í minni hlutanum að vinna öll mál tengd Grindavík eins hratt og vel og hægt er. Mikilvægast er þó að sjálfsögðu að við hlustum á Grindvíkinga sjálfa og tryggjum að þau fái frelsi til að velja. Verkefnið fram undan er mikið í sniðum en ef við leggjum öll hönd á plóginn þá getum við sigrast á þeim áskorunum sem í því felst. Það krefst samvinnu þvert á flokka. Það er von mín að þau okkar hér inni sem munu taka þátt í þessu þverpólitíska verkefni sýni Grindvíkingum að þegar neyðin bankar upp á þá stöndum við öll saman. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)