154. löggjafarþing — 57. fundur,  23. jan. 2024.

Störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Það var þriðjudaginn 23. janúar 1973, fyrir 51 ári, þegar Eyjamenn yfirgáfu heimili sín og fluttu flestir upp á land um stundarsakir. En það var þegar flest húsin voru að fara undir hraun, tugir á hverri nóttu, sem loðnuveiðar hófust og gúanóreykurinn liðaðist upp úr skorsteinunum á fiskimjölsverksmiðjunni í Vestmannaeyjum. Þannig kviknaði lífsneistinn þegar allt var á fullu í gosinu. Í dag standa Eldfellið, hraunið, Villavík, Prestavík og Páskahellir sem minnisvarði um þennan atburð og finnst nú öllum Eyjamönnum hann ekki endilega fallegur, sérstaklega okkur þessum gömlu sem þótti vænt um austurbæinn. Eyjamenn eru minntir á það enn þann dag í dag að þeir búa á eyju. Það er ekki langt síðan vatnsleiðslan skemmdist í óheppilegu slysi sem varð þegar bátur var að koma til hafnar en Eyjamenn voru löngu búnir að benda þingi og þjóð á að sú staða sem þá kom upp væri óásættanleg, enda hættan mikil þegar vatnsleiðslan fer. Það sama gerðist árið 2014 þegar rafmagnskapallinn milli lands og Eyja bilaði og hann hefur bilað og nýr lagður tvisvar sinnum a.m.k. Skerðanleg orka hefur haldið hitaveitunni í Eyjum í hæfilegum kostnaði og fiskimjölsverksmiðjunum í að keyra rafkatla en nú er svo komið að nú þurfa menn að keyra allt þetta í Vestmannaeyjum með olíu. Frá því að rafstrengurinn slitnaði á sínum tíma hefur hitaveitan keypt 4,5 milljónir lítra af olíu til Vestmannaeyja til að framleiða rafmagn. Núna vantar tvo rafstrengi milli lands og Eyja. Það vantar nýja vatnslögn. Það er mikilvægt fyrir öryggi íbúa í Eyjum, fyrir öryggi framtíðarfólks þar að koma þessum hlutum í lag.