154. löggjafarþing — 57. fundur,  23. jan. 2024.

Orkumál.

[14:47]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Við Íslendingar erum auðvitað mjög heppnir að því leytinu til að hér á landi og á miðunum í kringum landið er gnægð auðlinda. Við erum með fiskinn í sjónum, við eigum hugvitið, við eigum náttúruna og við eigum orkuna. Við höfum alltaf talið okkur trú um það, Íslendingar, að ástandið hér í þessum málum væri þannig að orðið orkuskortur ætti ekki að vera eitt af algengustu orðum stjórnmálaumræðunnar en þannig er það nú bara samt í dag. Við höfum alltaf talið okkur trú um það að við yrðum ekki í vandræðum með að afla orku en staðan er engu að síður sú að við sjáum ekki fram á að afla þeirrar orku sem nauðsynlegt er til að standa undir framtíðarvelferð og standa undir því sem við ætlum að gera í loftslagsmálum. Það er nefnilega mjög mikil eftirspurn eftir grænni orku. Við eigum nóg af henni en við þurfum að virkja hana og nýta hana. Gerum við það skilyrðislaust og endalaust á kostnað náttúrunnar og allra náttúrugæða? Nei, við þurfum að forgangsraða. Við þurfum að vera skynsöm í því og við eigum ákveðið tól sem á að hjálpa okkur við það verk. Það hefur hins vegar ríkt ákveðin kyrrstaða í þessu og ekki nægjanlega mikil fyrirhyggja vegna þess að við vitum að orkuskiptin eru mjög afturþung. Þegar við förum í skipin og flugvélarnar vantar mikla orku þar. Á þetta hefur margoft verið bent og jafnframt að það taki tíma að virkja og sækja orkuna.

Auðvitað verðum við að halda utan um þessi gildi, að við erum að reyna að ná einhvers konar jafnvægi á milli nýtingar og náttúruverndar, en mér finnst svolítið holur hljómur í því þegar þingmenn stjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, koma hér og tala um neyðarástand og orkuskort vegna þess að þessir flokkar hafa valið sér að starfa með flokki sem hefur í þessum málaflokki haft ákveðið neitunarvald. Tregðan er einna mest við ríkisstjórnarborðið þegar kemur að þessum málum og þar þurfa stjórnarflokkarnir tveir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, að horfa beint framan í ábyrgð sína. (Forseti hringir.) Við getum vissulega gert annað líka, (Forseti hringir.) við getum lagfært dreifikerfin okkar, raforkukerfið, þannig að þar verði minni sóun. En það er ekki í boði að heimili landsins horfi fram á orkuskort og það gerist æ algengara að við séum að brenna olíu þegar við ættum í raun með réttu ekki að þurfa þess.