154. löggjafarþing — 57. fundur,  23. jan. 2024.

Orkumál.

[14:54]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir góða umræðu en það vekur athygli mína að þeir sem voru með spurningar og mjög miklar ábendingar til mín sérstaklega hafa horfið úr salnum. Þetta er alveg nýtt, ég man ekki eftir að þetta hafi gerst áður. Ég hélt að menn vildu vera hérna og hlusta á. En hv. þm. Bergþór Ólason kemur hérna eins og af himnum ofan, það er vel, kemur svífandi, vonandi ekki niður en látum það liggja milli hluta. Ástæðan fyrir því, hv. þingmaður, að við erum í vanda núna er sú að við höfum ekki gert neitt í 15 ár þegar kemur að raforkunni og 20 ár í hitaveitunni. (Gripið fram í.) Ég ætla að benda hv. þingmanni á að þegar Miðflokkurinn var hér í ríkisstjórn og var í forystu í ríkisstjórn þá kláraðist þetta ekki. (Gripið fram í: Hvenær var Miðflokkurinn með forystu í ríkisstjórn?)(Forseti hringir.) Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson held ég að sé formaður Miðflokksins en það má vera misskilningur og mér þykir miður ef ég hef farið rangt með, að hv. þm. Bergþór Ólason hafi ekki verið við atkvæðagreiðslu og greitt atkvæði með rammaáætlun, (Forseti hringir.) það leiðréttist hér með. En þá kláraðist ekki rammaáætlun. Rammaáætlun kláraðist hins vegar með Vinstri grænum. (Gripið fram í.) Ef rammaáætlun hefði klárast þá hefði ástandið verið betra.

Viðreisn fer mikinn. Viðreisn er hérna hinum megin við Vonarstrætið í meiri hluta í hjá Reykjavíkurborg. Það var alger stöðnun hjá Orkuveitu Reykjavíkur því að það er ekki nóg að samþykkja rammaáætlun, einfalda regluverk eins og við höfum gert, fyrirtækin verða að nýta það sem er í nýtingarflokki. Það er fyrst núna að þau hafa gert það, sem er ánægjulegt, en það er ekki að þakka Viðreisn hér áður fyrr. Það er gott að hún er að vakna núna. Sama með rammaáætlun. Viðreisn greiddi ekkert atkvæði með rammaáætlun, talandi um stöðnun og að skammast í Vinstri grænum. Vinstri grænir greiddu atkvæði með rammaáætlun annars hefði hún ekki farið í gegn.

Varðandi orkuskortinn — út af loftslagsmarkmiðum þá þarf heimurinn sexfalda græna raforkuframleiðslu, sexfalda. Við þurfum bara tvöfalda hana. Hér koma þingmenn eftir þingmenn og reyna að tala um að hér vanti ekki græna orku. Það er mesta firring sem hefur komið fram hér í ræðustól Alþingis. (Forseti hringir.) Það er áhyggjuefni fyrir íslenska þjóð að hér séu hv. þingmenn sem skilja ekki að hér þarf græna orku, (Forseti hringir.) bæði fyrir landið allt og svo einstök svæði. Ég vona að við getum rætt það betur í nánustu framtíð.