154. löggjafarþing — 57. fundur,  23. jan. 2024.

Orkustofnun og raforkulög.

29. mál
[15:12]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir fyrirspurnina, en þetta er ósanngjörn fyrirspurn. Ég held að þetta sé bara það ósanngjarnasta sem ég hef fengið (Gripið fram í.) á mínum þingferli. Á ég að túlka það hvaða andstæðingar hins svokallaða þriðja orkupakka voru að segja? Er það sanngjarnt? (BergÓ: Þú talaðir, barðist …)

(Forseti (BÁ): Ekki tveggja manna tal.)

Virðulegi forseti. Maður reyndi að leiðrétta eins og maður mögulega gat svona helstu rangfærslur í þeim málflutningi. En að koma síðan hér upp og spyrja mig: Heyrðu, bíddu, er það þetta sem andstæðingar þriðja orkupakkans voru að meina — það er engin sanngirni í þessu. Flestir þeir sem settu sig inn í þau mál skildu ekkert í því hvað þeir sem voru að tala gegn þriðja orkupakkanum voru að tala um vegna þess að þeir voru alla jafna að tala um aðstæður sem voru í Noregi en ekki á Íslandi. Og biðja mig síðan að útskýra hér hvað menn voru að fara. Ég get alveg rakið aðeins söguna vegna þess að ég fylgdist auðvitað mjög vel með því. Eitt af mörgu skrýtnu í umræðunni um þriðja orkupakkann var að þeir sem töluðu gegn honum hér voru alltaf að tala um aðstæður eins og þær eru í Noregi. Svo má nefna mjög margt fleira. Það er líka ágætt að skoða hverju var spáð, hvað var sagt að myndi gerast. Hér átti nú að koma sæstrengur held ég bara daginn eftir og íslensk stjórnvöld áttu ekki að geta gert nokkurn skapaðan hlut. Það var nú eitt af því sem var sagt. En ég get ekki farið að túlka það sem þeir sem voru að tala gegn þriðja orkupakkanum voru að segja. Ég skal reyna að hjálpa hv. þingmanni eins og ég get með öll mál en ekki þetta.

Varðandi mat á áhrifum ríkissjóðs þá las hv. þingmaður nákvæmlega hvað þar er á ferðinni. Ef hér væru einhver stórkostleg útgjöld myndu menn auðvitað vísa til þess.