154. löggjafarþing — 57. fundur,  23. jan. 2024.

Orkustofnun og raforkulög.

29. mál
[15:16]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona að ég hafi ekki verið of ákveðinn við hv. þm. Bergþór Ólason sem er að verða að einhverju viðkvæmu blómi hérna í umræðunni. Ég vil alls ekki vera ákveðinn við hv. þingmann í svörum mínum og ég var bara einlægur í því að ég gat ekki svarað þessum útleggingum hv. þingmanns.

Varðandi þriðja orkupakkann þá er það tveggja stoða lausn. Það þýðir að við, þ.e. EES-ríkin, erum með ákveðið fyrirkomulag og síðan er það sem speglast hjá Evrópusambandinu. Ef hv. þingmaður vill ræða hvað þriðji orkupakkinn snerist um þá hófst upprunalega umræðan og atlagan eða andstaðan, getum við sagt, í Noregi. Þar höfðu menn áhyggjur vegna þess að Noregur er tengdur með strengjum við innri markað Evrópusambandsins. (BergÓ: Spurningin var um ACER.) — Ég er bara að reyna að útskýra að þetta tengist ekki. Ég er bara að reyna að gera það í fyllstu einlægni. Ég get bæði gert það hér úr ræðustól og síðan með hv. þingmanni, reynt að setja hann inn í út á hvað þessar deilur gengu. Hér voru menn að ræða hlutina eins og við værum í Noregi og það er bara ekki þannig. Við erum ekki tengd. Þá sögðu þeir sem töluðu gegn þriðja orkupakkanum: Þið stjórnið ekki neinu. Það kemur bara sæstrengur og við verðum víst tengd. Það gerðist auðvitað ekki, stóð aldrei til og ekkert sem bendir til þess. Núna nýlega féll dómur í hæstarétti Noregs þar sem því var fullkomlega hafnað að það hefði verið um eitthvert fullveldisafsal af hálfu Noregs til annarra ríkja eða ríkjasambanda að ræða. (BergÓ: Allt aðrar reglur og þú veist það.) — Nei, nei, það eru ekkert allt aðrar reglur. (BergÓ: Veistu hvað …) (Forseti hringir.) Í því felst þessi grundvallarmisskilningur og ef hv. þingmaður er að leggja út frá þessu er það bara sjálfsagt en við verðum þá að fara á dýptina í þá umræðu og ég er algjörlega til í það. Hv. þingmaður verður bara að fyrirgefa ef honum (Forseti hringir.) finnst ég ekki svara þessu nógu skýrt á tveimur mínútum, en ég veit í sjálfu sér ekki alveg hvar ég á að byrja þegar hv. þingmaður fer að spyrja út í þetta.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir hv. þingmenn á að fara ekki út í tveggja manna tal í umræðum.)