154. löggjafarþing — 57. fundur,  23. jan. 2024.

Umhverfis- og orkustofnun.

585. mál
[15:19]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um nýja Umhverfis- og orkustofnun. Frumvarpið var unnið í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu í náinni samvinnu við viðkomandi stofnanir ráðuneytisins. Tillagan lýtur að því að Orkustofnun og sá hluti Umhverfisstofnunar sem snýr að umhverfis- og loftslagsmálum sameinist í nýja stofnun, Umhverfis- og orkustofnun. Tillagan er hluti af umfangsmiklum stofnanabreytingum sem ég hef unnið að frá árinu 2022. Um er að ræða tillögur um þrjár stærri og öflugri stofnanir í stað átta. Áformað er að leggja fram á yfirstandandi löggjafarþingi alls fjögur frumvörp þar sem lagðar eru til stofnanabreytingar. Tekið skal fram að frumvarp þetta helst í hendur við frumvarp til laga um nýja Náttúruverndar- og minjastofnun, sem enn er til umfjöllunar í þingflokkum. Í því frumvarpi er lögð til sameining náttúruverndarsviðs Umhverfisstofnunar, Minjastofnunar Íslands, Vatnajökulsþjóðgarðs og Þingvallaþjóðgarðs. Gert er því ráð fyrir að verkefni Umhverfisstofnunar skiptist niður á þessar tvær nýju stofnanir.

Áform um lagasetningu og drög að fyrirliggjandi frumvarpi hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda til kynningar og athugasemda og hefur verið unnið úr þeim athugasemdum sem bárust eins og nánar greinir í samráðskafla frumvarpsins.

Í vinnu við stofnanabreytingar hef ég miðað að því að skapa vettvang fyrir kraftmeira fagstarf og árangur. Markmið mitt er að til verði faglega spennandi og áhugaverðir vinnustaðir þar sem þekkingar- og lærdómssamfélag er eflt og þekking, innviðir og gögn samnýtt. Þá legg ég ríka áherslu á að störfum verði fjölgað á landsbyggðinni og störfum með sveigjanlegum starfsstöðvum í kjörnum sem dreifast um landið.

Að baki frumvarpinu liggur frumathugun sem unnin var í samvinnu við forstöðumenn og aðra starfmenn stofnana. Athugunin leiddi m.a. í ljós samlegð með verkefnum Orkustofnunar og Umhverfisstofnunar, t.d. í tengslum við loftslagsmál og orkuskipti og stjórn vatnamála. Í starfsemi þessara tveggja stofnana eiga við megináherslur ráðuneytisins um að minnka losun og auka bindingu kolefnis, tryggja orku til orkuskipta, orkuöryggi og jafnt aðgengi að orku á landsvísu, að efla hringrásarhagkerfið og tryggja sjálfbæra nýtingu og heilnæmt umhverfi fyrir íbúa þessa lands. Stofnanir þessar eru fyrst og fremst stjórnsýslustofnanir og þurfa að búa yfir öflugri stjórnsýslu, góðu upplýsingastreymi, stafrænni miðlun og fræðslu og hagnýtingu rannsókna.

Í greiningarvinnu kom í ljós að ávinningur af frumvarpi þessu lýtur að faglegum viðfangsefnum, mannauði og þekkingu, fjármagni, innri virkni og þjónustu. Í því sambandi langar mig einnig að nefna átaksverkefni í leyfisveitingum þessara stofnana, sem er í undirbúningi í ráðuneytinu. Verkefnið felur í sér endurskoðun og endurhönnun ferla vegna leyfisveitinga á sviði orku- og umhverfismála, en þar eru ýmis tækifæri til úrbóta.

Stýrihópur ráðuneytisins skilaði ráðherra forathugun í desember 2022 þar sem lögð voru fram meginmarkmið og tillögur um breytingar á stofnanaskipulagi þar sem er m.a. er byggt á greiningu á fjármálum og rekstri, mannauðsmálum og húsnæðismálum auk þess sem sérstaklega var skoðuð staðsetning starfa á landsbyggðinni.

Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að Umhverfis- og orkustofnun taki við þeim mörgu og fjölbreyttu verkefnum og hlutverkum sem umræddar stofnanir sinna í dag og eru almennt ekki lagðar til breytingar hvað það varðar.

Sá hluti Umhverfisstofnunar sem varðar frumvarp þetta fer með framkvæmd og annast eftirlit að hluta eða öllu leyti með ýmsum lögum, þar á meðal lögum um loftslagsmál, lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um meðhöndlun úrgangs, lögum um stjórn vatnamála og efnalögum. Umhverfisstofnun fer einnig með hlutverk eða verkefni samkvæmt ýmsum öðrum lögum á málefnasviði ráðuneytisins, svo sem lögum um úrvinnslugjald, lögum um ráðstafanir um umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur og lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna. Þá fer stofnunin einnig með hlutverk og annast verkefni samkvæmt lögum á málefnasviði annarra ráðuneyta, svo sem lögum um fiskeldi og lögum um almannavarnir.

Líkt og Umhverfisstofnun þá fer Orkustofnun með framkvæmd og annast eftirlit að hluta eða öllu leyti með framkvæmd ýmissa laga, þar á meðal raforkulaga, laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, vatnalaga, laga um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, laga um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi og laga um upprunaábyrgð á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum. Orkustofnun annast einnig verkefni samkvæmt öðrum lögum á málefnasviði ráðuneytisins, svo sem orkulögum, lögum um orkusjóð, lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011, en einnig lögum á málefnasviði annarra ráðuneyta, svo sem lögum um almannavarnir.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Umhverfis- og orkustofnun hafi fyrst og fremst með höndum stjórnsýslu og eftirlit samkvæmt umræddum lögum. Samhliða er lagt til að Orkustofnun verði lögð niður sem og viðkomandi hluti af starfsemi Umhverfisstofnunar. Ljóst er að vönduð þjónusta nýrrar stofnunar er lykilatriði með skilvirkum ferlum, skýrri upplýsingamiðlun og góðri ráðgjöf. Verði frumvarp þetta að veruleika mun fjöldi stöðugilda í nýrri Umhverfis- og orkustofnun verða alls 115.

Frumvarpið felur í sér talsverðar breytingar frá núgildandi lögum um Umhverfisstofnun, nr. 90/2002, og lögum um Orkustofnun, nr. 87/2003. Lög um Umhverfisstofnun eru rýr að efni til og fela aðallega í sér upptalningu á þeim lögum sem stofnuninni ber að starfa eftir. Markmiðið með frumvarpinu er að setja einfalda og skýra lagaumgjörð utan um starfsemi stofnunarinnar og hlutverk hennar þar sem áherslan er á málefnin og eðli verkefna. Í frumvarpinu er að finna hefðbundin ákvæði um yfirstjórn ráðherra og skipan og hlutverk forstjóra nýrrar stofnunar. Um meginhlutverk stofnunarinnar, svið, málefni og helstu verkefni er fjallað í þremur greinum. Sérstaklega er fjallað um hlutverk Raforkueftirlitsins, sem ber að aðgreina frá annarri starfsemi stofnunar og tryggja sjálfstæði í störfum til að uppfylla skuldbindingar Íslands gagnvart EES-samningnum. Í sérstakri grein er að finna almennt ákvæði sem minnir á þær heimildir sem Umhverfis- og orkustofnun er ætlað að hafa samkvæmt ákvæðum annarra sérlaga, sem tengjast stjórnsýslu- og eftirlitshlutverki stofnunarinnar. Um er að ræða ýmsar valdheimildir, heimildir til að beita stjórnsýsluviðurlögum, gjaldtökuheimildir stofnunarinnar o.fl. Í ljósi þess að bæði Orkustofnun og Umhverfisstofnun starfa samkvæmt nokkrum fjölda laga eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á þeim lögum sem um er að ræða til að færa hlutverk þessara stofnana og verkefni til Umhverfis- og orkustofnunar.

Í bráðabirgðaákvæði frumvarpsins er lagt til að starfsfólk Orkustofnunar og Umhverfisstofnunar sem hefur sinnt þeim verkefnum sem munu heyra undir nýja stofnun njóti forgangs til þeirra starfa sem munu verða til með tilkomu nýrrar stofnunar. Tilgangur nýrrar stofnunar er fyrst og fremst að koma á fót faglega sterkri stofnun og er ávinningurinn þar margþættur. Markmiðið er því ekki að fækka störfum heldur má m.a. gera ráð fyrir auknum fjölbreytileika starfa. Í kjölfar samráðs er gert ráð fyrir í ákvæðinu að starfsfólk sem ræður sig hjá nýrri stofnun haldi þeim réttindum sem það hefur áunnið sér til námsleyfis og um lengdan uppsagnarfrest þegar kjarasamningar gera ráð fyrir að sá réttur miði við samfellt starf hjá sömu stofnun.

Að lokum er kveðið á um heimild til að auglýsa og skipa nýjan forstjóra þegar lögin hafa verið samþykkt. Gert er ráð fyrir að skipaður forstjóri vinni að því að undirbúa starfsemi stofnunarinnar í samvinnu við ráðuneytið.

Gert er ráð fyrir að sameiningin hafi í för með sér hagræðingu til lengri tíma sem nýtt verður til að efla nýja stofnun. Í henni felst m.a. samnýting á tækjum og búnaði, betri nýting fjármagns vegna sérhæfðra upplýsingakerfa, aukin samþætting og samlegð í stoðþjónustu, tækifæri til að draga úr húsnæðiskostnaði og aukin hagkvæmni í innkaupum.

Í því sambandi má nefna nýundirritaðan samning ráðuneytisins við Ríkiskaup um gæðamat og ráðgjöf á sviði opinberra innkaupa. Samningurinn felur í sér greiningu Ríkiskaupa á innkaupagögnum ráðuneytisins og stofnana þess og gæðamat á innkaupunum. Í gæðamatinu felst ráðgjöf um fylgni við lög, yfirsýn yfir sameiginlegar innkaupaþarfir og tækifærisgreining á innkaupum með áherslu á sjálfbærni og hagkvæmni.

Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að lögfesting þess muni hafa áhrif á útgjöld eða afkomu ríkissjóðs.

Orku- og loftslagsmál eru stærstu málaflokkar okkar tíma og krefjandi markmið íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum gera kröfu um aukna skilvirkni. Með aukinni samþættingu orku- og loftslagsmála væntum við þess að hægt verði að byggja aðgerðir í loftslagsmálum á sterkari gögnum og nýta þekkinguna betur.

Virðulegur forseti. Nú hafa margir þingmenn í öllum flokkum nokkurn veginn kallað eftir því að við þurfum að ná enn þá betri árangri þegar kemur að grænni orkuöflun. Það liggur alveg fyrir eins og margoft hefur komið fram að þegar lítið hefur verið gert í grænni raforkuframleiðslu í 15 ár og lítið gert í jarðhitamálum í 20 ár þá kemur að skuldadögum. Og jafn mikið og maður myndi vilja það þá er ekki hægt að breyta því með því að veifa sprota. Það liggur hins vegar alveg fyrir að ef við ætlum að ná þeim árangri sem við ætlum þá liggur okkur á og þá þurfum við að einfalda ferla. Það er grundvallaratriði. Það er það sem aðalritari Sameinuðu þjóðanna kallar eftir þegar hann segir að heimurinn þurfi að standa sig betur í grænni orkuöflun. Það er það sem allir tala um sem að málum koma. Ef hv. þingmenn meina það að þeir styðji að við náum auknum árangri, því sannarlega höfum við náð árangri á síðustu tveimur árum eins og við þekkjum, í þessum málaflokki þá styðja þeir þetta frumvarp og reyna að vinna það eins hratt og mögulegt er.

Ég hef orðið fyrir vonbrigðum með það, virðulegi forseti, vegna þess að ég hef komið hér — og það er ekki bara af þessum ástæðum sem hér eru heldur kemur það líka fram í öllum þeim skýrslum, sem myndu ef þær væru allar settar saman fylla einhverja gáma eða bara Laugardalshöllina, um að það sé ekki skynsamlegt fyrir okkur Íslendinga að vera með mikið af pínulitlum stofnunum sem eru ekki burðugar og geta ekki almennilega sinnt hlutverki sínu og við ættum að hafa færri og öflugri stofnanir þannig að þær geti betur sinnt hlutverki sínu. Ég hef orðið fyrir vonbrigðum með að það sé ekki meiri stuðningur þegar á hólminn er komið og þegar þessar sameiningar eiga að eiga sér stað. Ég segi það vegna þess, virðulegi forseti, að ég hef ekki bara í þessu embætti heldur líka í öðrum embættum, t.d. sem heilbrigðisráðherra, beitt mér fyrir sameiningum. Ég veit ekki til þess að neinn stjórnmálamaður hafi viljað snúa til baka með sameiningar t.d. heilbrigðisstofnana. Það er ýmislegt að í heilbrigðismálunum og má gera margt mun betur í heilbrigðiskerfinu en ég veit ekki til þess að neinn hafi komið hér fram og sagt að það eigi að fjölga þeim og gera þær margar og litlar aftur. Það mun auðvitað aldrei neinn gera það þegar þetta frumvarp verður orðið að lögum, ef það verður að lögum. En það verður að fara saman hljóð og mynd.

Ég segi þetta, virðulegi forseti, vegna þess að þann 10. nóvember kom ég með fyrstu sameininguna sem fékk fjórar umsagnir, allar jákvæðar, en það var ekki hægt að klára það mál fyrir jól. Menn sögðu hér mjög margir í þingsal: Það þarf að gera eitthvað í grænum orkumálum, en það var enginn sem beitti sér fyrir því að ég fengi að tala fyrir þessu máli þannig að það hefði getað farið til umsagnar og menn gætu hafið starfið núna. Það verður nefnilega að fara saman hljóð og mynd. Frumvörpin verða lögð fram hér, ekki bara sameiningarfrumvarp heldur líka um einföldun á reglugerð þegar kemur að vindorku og annað það sem ég tel mikilvægt til þess að við getum náð árangri. Þannig að ég segi bara í mestu vinsemd við hv. þingmenn, sem ég trúi að vilji sjá betra fyrirkomulag í þessum málaflokki, að við verðum að klára þessi frumvörp og gera þau að lögum. Því fyrr sem við gerum það, því fyrr náum við enn betri árangri.

Virðulegi forseti. Ég hef hér rakið meginefni frumvarpsins og ég legg til að því verði að lokinni 1. umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.