154. löggjafarþing — 57. fundur,  23. jan. 2024.

Umhverfis- og orkustofnun.

585. mál
[15:31]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Hann kom mér dálítið á óvart þessi lokakafli hjá hæstv. ráðherra þar sem hann fór að tala um annað mál sem er til umfjöllunar í umhverfis- og samgöngunefnd og kvartaði undan því að það hafi ekki verið klárað fyrir jól. Ég velti því fyrir mér hvort þetta sé kannski samtal sem eigi frekar að eiga sér stað inni á þingflokksfundum af því að framsögumaður málsins, Njáll Trausti Friðbertsson, situr nú í sama flokki og hæstv. ráðherra. Málið kom að vísu ekki fyrr en um miðjan nóvember til nefndarinnar og lauk umsagnarferli um mánaðamótin nóvember/desember og sama hversu lítilvægt málið kann að virðast í augum ráðherra þá er ég ekkert viss um að nefndin hafi bara haft tíma til að klára það. Það var annað sem þurfti að ljúka fyrir áramót. Þessar stofnanasameiningar eru ekki jafn háðar þeim dagsetningum, sem endurspeglast t.d. í því að öll málin þrjú áttu að koma til þingsins í október. Það er mælt fyrir þeim í nóvember og núna í janúar og þriðja málið er ókomið.

Tilefni þess að ég bað um andsvar við hæstv. ráðherra var að hann nefndi í framsögu sinni að þetta frumvarp sem við ræðum hér í dag haldist í hendur við frumvarp um Náttúruverndar- og minjastofnun og mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, sem sagði að málið væri til umfjöllunar í þingflokkum, hvenær hann reikni með að það líti dagsins ljós, hvort þingflokkar stjórnarflokkanna séu einhverjir kannski með einhverjar efasemdir um það mál, sem kemur nú ekki á óvart í ljósi þess að á síðasta kjörtímabili var systurfrumvarpið um Þjóðgarðastofnun drepið af ríkisstjórnarflokkunum. Mig langar að vita: Hvenær er þess frumvarps að vænta og hvað tefur það?