154. löggjafarþing — 57. fundur,  23. jan. 2024.

Umhverfis- og orkustofnun.

585. mál
[15:33]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Fyrst aðeins út af Náttúrufræðistofnun. Nú er það þannig að sá sem hér stendur er ekki alveg ókunnugur þingstörfum. Ég hef nú aðeins komin nálægt þeim. Ég fylgdist auðvitað vel með því hvernig þetta gekk í þinginu og í þingnefndinni og líka með viðbrögðum stjórnarandstöðunnar. Þetta er frumvarp sem kom inn í þingið 10. nóvember, var mjög einfalt, er mjög einfalt, fékk fjórar jákvæðar umsagnir. Og aftur: Ég hef nú aðeins komið að þingstörfum áður. Auðvitað er það þannig og við vissum það líka að það var ekki hægt að koma neinu í gegnum þingið ef stjórnarandstaðan setti sig þversum á móti því rétt fyrir jólin. Það liggur alveg fyrir. Ég ætla ekkert að fara að gera neitt annað heldur en að vekja athygli á því að hér er frumvarp inni sem er mjög mikilvægt að klára. Við vitum það alveg og það hefur bara aukist, vald stjórnarandstöðunnar af því að tefja mál. Ef stjórnarandstaðan vill hins vegar vinna mál og klára þau þá verður það gert.

Varðandi seinni spurningu hv. þingmanns þá vonast ég bara til þess að við sjáum þau frumvörp sem fyrst. Ég er bara að vekja athygli á því vegna þess að hér hafa margir hv. þingmenn — og ég fagna því og hef talað um mikilvægi þess að unnið verði hratt og vel í þessum málaflokki — þá hangir þetta algjörlega saman. Þetta hangir algjörlega saman.