154. löggjafarþing — 57. fundur,  23. jan. 2024.

Umhverfis- og orkustofnun.

585. mál
[15:46]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Bara aðeins út af fyrra málinu sem við ræddum, hv. þingmaður sagði að meiri hlutinn hefði fullt dagskrárvald og að vísu vísaði ég í meiri hlutann ef ég man rétt. Auðvitað hefur formaður og þar af leiðandi meiri hlutinn dagskrárvald en við vitum það, virðulegi forseti, og hv. þingmaður veit það að sérstaklega á síðustu dögum þingsins þá er mjög erfitt að klára mál eða ómögulegt nema stjórnarandstaðan sé tilbúin til þess að leyfa mönnum að koma málum í gegn. Það er bara vel þekkt. Það er bara staðreynd mála. Ég veit ekki af hverju hv. þingmaður er að tala eitthvað öðruvísi um það. Við vitum það auðvitað báðir. Mér finnst þetta vera orðinn svolítill útúrsnúningur hjá hv. þingmanni. Það hefur legið alveg fyrir uppleggið á þessu og hv. þingmaður getur farið vel yfir það þegar það fer í gegnum þingið. Ef ég man rétt er gert ráð fyrir því að við séum að ná, ég man ekki alveg prósentutöluna en þetta hefur alltaf legið fyrir í kynningu málsins. Auðvitað erum við að gera þetta til að hagræða og ná aukinni skilvirkni. Til þess er leikurinn gerður. Við erum líka að fara þá leið, ekki bara þegar kemur að húsnæðismálum, færri stjórnendum, heldur líka opinberum innkaupum, alls staðar, í öllu sem heyrir undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið. Sömuleiðis erum við að fara þá leið að í stað þess að skattgreiðendur séu að greiða þann kostnað sem til fellur, sem þeir munu auðvitað gera út af leyfisveitingum og öðru slíku, að það falli á þá sem sækja um leyfin. (BergÓ: En hvers vegna hefur það ekki jákvæð áhrif á fjárhag ríkisins?)(Forseti hringir.) Þetta hefur allt saman jákvæð áhrif á ríkissjóð. (Gripið fram í.) Nei, það stendur og ég las það hér upp í framsögu minni að menn munu líta hér á hagræðingu til lengri tíma — alveg skýrt.