154. löggjafarþing — 57. fundur,  23. jan. 2024.

Umhverfis- og orkustofnun.

585. mál
[15:53]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir ágætisumræðu og vildi enda á því að ég hef átt í ágætisskoðanaskiptum við hv. þm. Bergþór Ólason og er alveg sannfærður um að hann muni verða stuðningsmaður í þessu máli og treysti á það. Ég vil þó fyrst og fremst koma hér upp og þakka hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur fyrir hennar ræðu og hennar brýningu. Þetta er uppleggið og hv. þingmaður bendir réttilega á að Umhverfisstofnun hefur staðið sig vel í því að efla og styrkja starfsstöðvar á landsbyggðinni. Reyndar er það svo að ég er vonandi að fara til Hvanneyrar í febrúar til að fagna þar nýrri starfsstöð Umhverfisstofnunar, og þær eru á fleiri stöðum á landinu.

Svo ég fari yfir það, virðulegi forseti, þá er eitt af því sem við lögðum til grundvallar þegar við fórum og vorum að skoða þessi sameiningaráform að skoða alveg sérstaklega byggðaþróunina. Til að gera langa sögu stutta þá hafa verið mun meiri mannfjöldabreytingar heldur en fólk gerir sér almennt grein fyrir vegna þess að það blekkir svolítið þegar menn líta bara á kjördæmin. Þó svo að fullkomlega eðlilegt sé að breytingar séu á búsetu og öðru slíku þá er það auðvitað nokkuð mikið þegar menn líta á það að utan Hvítár árið 1980 voru 33% þjóðarinnar, 72.600 manns, en núna eru það 20% af þjóðinni, 74.000 manns. Það er eiginlega fækkun á öllum stöðum, nema á Eyjafjarðarsvæðinu og svo í kringum álverið á Austfjörðum og á Höfn. Ég man ekki eftir öðrum stöðum fyrir utan ytri Hvítárhringinn. Til dæmis á Vestfjörðum, því að ég veit að hv. þingmaður ber mjög hag fyrir þeim landshluta, hefur íbúum á þessum tíma fækkað úr 11.000 í 6.500 og eru núna færri á öllum Vestfjörðum heldur en á Akranesi. (HSK: Þeir eru komnir í 7.000 aftur.) Það er gott að þeir séu 7.000 aftur. Ég er þá með gamlar tölur en það breytir því ekki að það eru mun færri heldur en á Akranesi.

Það er eins greint og það getur orðið í lagatexta að áhersla er lögð á það að við ætlum ekki að flytja fólk en það verður mikil endurnýjun út af aldri í þessum stofnunum á næstu árum. Þess vegna verða störfin staðsett úti á landi, vegna þess að flest það sem þessar stofnanir eiga við er á landsbyggðinni og því er það fullkomlega eðlilegt. Það er halli og það eru hlutfallslega fleiri miðað við mannfjölda sem vinna í þessum stofnunum á höfuðborgarsvæðinu heldur en á landsbyggðinni. En við erum líka búin að stíga þessi skref, t.d. var lögheimili Vatnajökulsþjóðgarðs fært úr Garðabæ yfir á Höfn í Hornafirði. Það var eitt af því fyrsta sem ég gerði sem ráðherra. Líka er í því frumvarpi sem ég vona að ég nái að mæla fyrir sem fyrst, þ.e. hitt frumvarpið sem er um Náttúru- og minjastofnun, gert ráð fyrir því að þar sem þjóðgarðar eru sé þriggja manna stjórn. Við breytum ekki fyrirkomulaginu í Vatnajökulsþjóðgarði og Þingvallaþjóðgarði samkvæmt frumvarpinu en þar sem verða þjóðgarðar, eins og t.d. á Snæfellsnesi verður þriggja manna stjórn þar sem einn verður tilnefndur af ráðherra en tveir af sveitarfélögum þannig að tryggt sé að þjóðgörðunum sé alltaf stýrt af heimafólki að meiri hluta. Það er bara liður í þessari hugmyndafræði. Ég vona því að hv. þingmaður styðji þétt við bakið á þessu frumvarpi og öðrum frumvörpum, ekki bara vegna þess að það sé skynsamlegt að hafa stærri, öflugri og skilvirkari stofnanir, út frá hagræði og skilvirkni, heldur líka vegna þess að hér er þessi áhersla sem hv. þingmaður var sérstaklega að vísa til í sinni ágætu þingræðu.