154. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2024.

Störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Skuggalegar fregnir berast frá Miðausturlöndum þessi dægrin. Ekki þarf að fjölyrða um þann hrylling sem átt hefur sér stað í Palestínu, sérstaklega á Gaza síðustu vikur og mánuði, en nú eru merki um að átökin séu að breiðast út og stigmagnast. Bandaríkin og Bretland hafa á síðustu dögum gert stórfelldar loftárásir á Jemen. Yfirlýstur tilgangur þeirra árása er að ráða niðurlögum skæruliðasveita Húta en sérfræðingar í málefnum svæðisins vara við því að útilokað sé að gera slíkt með loftárásum og hætta sé á að langvinnt stríð brjótist út. Maður hefur raunar heyrt í fréttum að hluti af árásunum, sér í lagi þegar kemur að skipaumferð, sé vegna þess að nú sé þetta farið að hafa áhrif á vöruflutninga til Vesturlanda en menn hafa algerlega horft fram hjá hörmungunum sem hafa blasað við almenningi í Jemen sem er eitt stríðshrjáðasta land í heimi. Íbúarnir þar hafa mátt þola ólýsanlegar hörmungar vegna áralangs hernaðar Sádi-Araba og bandamanna þeirra, hernaðar sem illu heilli var studdur bæði beint og óbeint af NATO-ríkjum. Aðgerðir Bandaríkjamanna og Breta í Jemen eru brot á alþjóðalögum. Ríkin taka sér lögregluvald sem enginn hefur veitt þeim og með hernaðinum er látið undan kröfum Netanyahu forsætisráðherra Ísraels sem hefur öllum árum reynt að flytja stríðið á Gaza til annarra landa. Hernaðarleiðangur þessara meintu vinaþjóða okkar er ekki til þess fallinn að stuðla að friði fyrir botni Miðjarðarhafs heldur er hann tilraun til stigmögnunar og getur sett alla heimsbyggðina í hættu. Ég vil nota tækifærið hér og hvetja utanríkismálanefnd Alþingis til að vera vel á verði í þessu máli og íslensk stjórnvöld til að gera allt til að tala máli friðar í þessum heimshluta.