154. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2024.

áhrif ófriðar á þróunarsamvinnu Íslands.

523. mál
[15:45]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég kveð mér hér hljóðs í þessari umræðu vegna þess að mér finnst mikilvægt að draga fram það atriði að ófriður eða stríð bitna alltaf á almennum borgurum og leggja samfélög í rúst. Ég veit ekki um neinn ófrið sem hefur orðið til þess að í raun styrkja stöðu almennings í löndum. Mér finnst þess vegna mikilvægt að það sé rætt um það að leiðin til þess að það sé hægt að nýta fjármagn í að byggja upp samfélög sem eru að glíma við fátækt, en líka þau sem eru að glíma við ýmiss konar önnur mál, er að koma með virkari hætti inn í það að koma í veg fyrir átök. Þannig sparast langmestu peningarnir og þannig bjargast flest mannslíf og þannig glatast minnstu samfélagslegu verðmætin.