154. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2024.

útflutningsleki til Rússlands.

529. mál
[16:03]
Horfa

utanríkisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Já, ég vil sömuleiðis þakka fyrir tækifærið til að ræða þessi mál. Við þurfum að átta okkur á því hvernig bæði við Íslendingar erum að framkvæma viðskiptaþvinganir og að hvaða marki þær skuldbindingar sem við tökum á okkur með viðskiptaþvingunum hafa praktíska þýðingu hér á Íslandi. Við sjáum það t.d. í þessum tilvikum sem við höfum verið að ræða hér í þessari umræðu að við virðumst ekki vera að sjá neinn útflutningsleka héðan. Hins vegar hefur sagan sýnt að oft er verið að setja á, vegna samstarfsríkja um viðskiptaþvinganir, eins og t.d. þegar Rússland réðist inn á Krímskagann og innlimaði hann að lokum — að þá er beitt þvingunum þar sem þau ríki sem koma að smíðum þvingunarpakkans hafa oft á tíðum gætt þess að ganga ekki svo hart fram að það skaði einhverja hagsmuni í þeirra eigin ríkjum. Það var frægt þegar beita átti Rússa miklum viðurlögum og hætta að selja þeim vopn eftir þá innrás en til stóð að Frakkar myndu engu að síður afhenda þeim flugmóðurskipið sem þeir höfðu nýlega pantað og var alveg að verða tilbúið til afhendingar. Ekkert varð þó úr því að flugmóðurskipið yrði afhent þegar upp var staðið vegna þess að það sáu allir hversu fráleitt málið var. En þvingunarpakkarnir sem þá voru afgreiddir og afleiðingarnar sem birtust okkur með viðbrögðum Rússa í framhaldinu höfðu á þeim tíma án vafa hlutfallslega nokkuð þung áhrif á Íslandi borið saman við mörg þeirra ríkja sem komu að því að smíða aðgerðirnar.