154. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2024.

álagningarstofn fasteignaskatts.

278. mál
[16:05]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Diljá Mist Einarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Fasteignaskattur er sérlega ófyrirsjáanlegur og ósanngjarn skattur sem leggst á eignir fólks óháð afkomu þess. Álagningarstofninn er lögbundinn svo að hendur sveitarfélaga eru bundnar að því leytinu til þótt þau séu allt of dugleg að nýta sér svigrúm laganna til hæstu álagningar. En það er svo önnur saga.

Skatturinn hefur komið sérstaklega illa við heimili og fyrirtæki á tímum óðaverðbólgu fasteignaverðs enda reiknast fasteignaskattur af fasteignamati. Hækkunin hefur ítrekað verið umfram spár og kemur alltaf jafn leiðinlega á óvart. Sum sveitarfélög hafa við þessar aðstæður reynt að koma til móts við fólkið sitt með lækkun álagningar en alls ekki öll. Það kemur lítið á óvart að sveitarfélagið mitt, langstærsta sveitarfélag landsins, Reykjavíkurborg, hefur ekki séð sér fært að gera það heldur tekið fegins hendi á móti frekari fjármunum frá íbúum sínum til að eyða — og það á erfiðum tímum.

Mig langar því að heyra sjónarmið hæstv. innviðaráðherra varðandi þetta og hvort ekki sé kominn tími á að breyta álagningarstofni fasteignaskatts í lögum.