154. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2024.

snjallvæðing umferðarljósa í Reykjavík.

463. mál
[16:16]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Diljá Mist Einarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég spyr hæstv. innviðaráðherra út í það af hverju það sé ekki búið að klára snjallvæða umferðarljós í Reykjavík. Ég hugsa honum líka þegjandi þörfina þegar ég keyri úr Grafarvoginum og yfir Höfðann og áfram og finnst þetta bara vera óskiljanlegt. Ég hugsa reyndar miklu oftar til borgarstjórans við þessar aðstæður, fyrrverandi borgarstjóra, ekki þessa nýja. Árið 2019 átti ráðist í þetta þegar í stað samkvæmt samningi sem Reykjavíkurborg gerði við stjórnvöld og hæstv. ráðherra undirritaði. Þegar við höfum staðið hér áður og rætt nákvæmlega þetta sama mál hefur hæstv. ráðherra sagt að úttekt hafi bara blessað úreltan búnað borgarinnar og auðvitað að það hafi verið stofnaður hópur til að skoða þetta. Það er það sem borgin gerir best, hvort sem það er snjómokstur, sorphirða eða umferðarljós. Ég vildi gjarnan fá að heyra ný svör frá hæstv. ráðherra í þessari umferð. Hann er auðvitað ekki úr þessu kjördæmi og keyrir e.t.v. ekki eins mikið um það og ég, og hefur iðulega bílstjóra og getur nýtt bílferðina betur. En ég er orðin svakalega þreytt á því að keyra um Reykjavík og vera ein stopp á gatnamótum á rauðu ljósi í engri umferð. Það gerist, ég veit að þetta hljómar ótrúlega en það gerist í Reykjavík, t.d. ótrúlega snemma á morgnana eða eiginlega á nóttunni. En það gerist og það er óþolandi.