154. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2024.

framfylgd reglna um rafhlaupahjól.

321. mál
[16:29]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Frú forseti. Rafhlaupahjól eru að mínu viti gríðarlega góð og mikilvæg viðbót inn í flóru ólíkra samgangna og geta verið mjög vistvæn og þægileg í borgarumhverfi. En við vitum það líka að það þarf að vera góð umgjörð um þau til að þau virki og séu ekki í andstöðu við aðra umferð eða skapi slys. Ég ætla að láta slysa- og öryggisumræðuna að einhverju leyti liggja milli hluta þó svo að það tengist alveg inn í þau atriði sem ég ætla að spyrja hæstv. ráðherra um.

Kveikjan að þessari fyrirspurn var raunar teiknimynd, mynd sem ég sá á samfélagsmiðlum þar sem sjá mátti í tvo einstaklinga á rafhlaupahjóli á gangstétt og rafhlaupahjól sem ekki var í notkun þvera gangstétt og einstakling í hjólastól fyrir aftan sem komst ekki leiðar sinnar. Þau á rafhlaupahjólinu voru að tala um hvað þetta væri frábært til að auka aðgengi fólks um borgina.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra í hve miklum mæli sektarákvæðum vegna brota á reglum um rafhlaupahjól hefur verið beitt, hvort hægt sé innan ramma gildandi laga að innheimta sektir byggðar á staðsetningartækni rafhlaupahjóla, þ.e. ef þau eru skilin eftir einhvers staðar þar sem þau hindra til að mynda umferð annarra. Eru skilgreind svæði þar sem ber að leggja rafhlaupahjólum þegar notkun þeirra og leigu er lokið? Sums staðar erlendis er það þannig að þú getur einfaldlega ekki skilið hjólið eftir annars staðar en í þar til gerðu bílastæði og borgar bara leigu þar til hjólið er komið á slíkan stað. Hver er ábyrgð fyrirtækja sem hafa hlaupahjól til útleigu í þessum efnum? Og að lokum: Hefur ráðherra íhugað að skerpa á reglum eða viðurlögum svo að frágangur á rafhlaupahjólum verði ekki til að hefta umferð og aðgengi fólks sem notar hjálpartæki, svo sem hjólastóla? Ég held að þetta sé eitthvað sem mjög mörg okkar sem notum einhvers konar hjálpartæki sem krefjast svolítils pláss höfum rekið okkur á á gangstéttum og er í rauninni viðbót við það þegar bílar leggja þannig að þeir tefja umferð.

Ég hlakka til að heyra svör ráðherrans í þessum efnum. Ég held að það sé mikilvægt að við sem samfélag tökum hreinlega saman samtal um þetta.