154. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2024.

framfylgd reglna um rafhlaupahjól.

321. mál
[16:36]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir þessa fyrirspurn. Ég held að flest séu sammála um að þessi mál séu í ákveðnum ólestri. Mig langar því að benda á eina reglu sem ég veit ekki betur en að gildi enn varðandi hlaupahjólin, sem er sú að í rauninni er óheimilt að vera á hjóli á götunni. Þetta tel ég vera gríðarlega mikinn galla. Ég hef reyndar ekki orðið vör við það að þessu sé framfylgt en hins vegar held ég að þetta sé eitthvað sem er brýnt að breyta vegna þess að ég er sannfærð um að fólk á rafhlaupahjólum sé miklu hættulegra, bæði sjálfu sér og öðrum, á gangstéttum en á götum þar sem er t.d. 30 eða 50 km hámarkshraði. Ég var í Danmörku um daginn og þar er svona hálfgerð samgönguparadís, ég verð að játa það. Þar mega rafhlaupahjólin vera á hjólastígum og á götunni upp að 50 km hámarkshraða.

Mig langaði kannski, ef mér leyfist að lauma mér inn í fyrirspurn hv. þingmanns, að spyrja hæstv. ráðherra hvort það komi til greina að heimila að rafhjól séu á götunni upp að 50 km hámarkshraða.