154. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2024.

framfylgd reglna um rafhlaupahjól.

321. mál
[16:39]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin hér sem ég held að séu gagnleg til að vinna áfram með. Ég vil líka þakka þeim hv. þingmönnum sem hafa komið með innlegg inn í umræðuna. Ég segi að ég þakki hæstv. ráðherra fyrir svörin til að vinna áfram með, því að mér finnst blasa við af þeim að það eru hlutir í lagaumhverfinu sem þarf að skerpa á. Mér heyrist það til að mynda vera í þá átt að það sé alveg skýrt að það verði að leggja rafhlaupahjólunum inn á skilgreindu svæði og að það sé ekki hægt að komast upp með að skilja þau eftir annars staðar. Þetta er greinilega mál sem þarf líka að taka upp á vettvangi sveitarstjórnarstigsins því að það er rétt sem hæstv. ráðherra bendir á, að sveitarfélögin hafa líka skyldum að gegna í að koma hér á góðu umhverfi um þessi farartæki.

En ein af ástæðunum fyrir því að ég legg svona mikla áherslu á mikilvægi þess að það verði að leggja rafhlaupahjólunum innan skilgreindra marka er bæði slysahættan, ekki endilega fyrir rafhjólanotandann, sem er bara farinn eitthvert annað, heldur fyrir hina sem eru á ferðinni. Hjólreiðamenn hafa lýst því hvernig þeir lenda í slysum þar sem þeir eru að hjóla í myrkri eða koma fyrir beygjur og lenda á rafhlaupahjóli sem hefur verið skilið eftir á miðjum gangvegi. Það er oft fólk sem er á meiri hraða en notendur hjálpartækja sem lenda í annars konar vandræðum vegna þess að þeir komast ekki leiðar sinnar.

En að lokum þá vil ég aftur þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin hér. Ég vona að hann sé til í að taka með mér snúning á því hvort við getum ekki gert eitthvað til að koma þessum málum í betra horf.