154. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2024.

fjárhæðir styrkja og frítekjumörk.

390. mál
[16:54]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Frú forseti. Líkt og við höfum margoft rætt hér í þingsal þá er kerfi örorku- og endurhæfingarlífeyris allt of flókið og það er akkúrat það sem hv. þingmaður kom inn á þegar hann nefndi að hækkunin á frítekjumarki atvinnutekna, sem við erum öll sammála um að hafi verið jákvæð, á samt sem áður ekki við um alla bótaflokka. Það er eitthvað sem við erum mjög meðvituð um í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, framfærsluuppbótin er t.d. ekki þarna undir og það veldur mörgu fólki áhyggjum, m.a. við að fara út á vinnumarkað. En í því nýja kerfi sem við erum að þróa og hanna í ráðuneytinu í boðuðu frumvarpi erum við að leggja til að framfærsluuppbótin falli niður eða fari inn í almannatryggingarnar, sem er núna í félagslegu aðstoðinni. Það held ég að sé mjög mikið framfaraskref í almannatryggingum örorkulífeyrisþega. Markmiðið með breytingunum er að bæta sérstaklega kjör þeirra sem minnst hafa, þeirra sem fá einvörðungu greiðslur frá Tryggingastofnun og þeirra sem hafa litlar aðrar tekjur, gera því fólki kleift að halda sem mestu eftir af því. Ég vil bara taka höndum saman með hv. þingmanni og öðrum þeim sem tala svipuðu máli og ég hyggst halda áfram á þeirri braut sem ég vil meina að ég hafi markað sem ráðherra, að bæta kjör og lífsgæði fatlaðs fólks. Við höfum stigið mikilvæg skref nú þegar. En stærstu skrefin eru vissulega eftir með boðuðu frumvarpi nú á vorþingi sem ég vonast til að koma með inn í þingið í mars.