154. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2024.

ferðaþjónustustefna.

561. mál
[16:57]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Í drögum að framtíðarsýn og leiðarljósi íslenskrar ferðaþjónustu til 2030 segir að Ísland eigi að verða leiðandi í sjálfbærri ferðaþjónustu, en þar undir má finna markmið á borð við arðsemi, ávinning, einstaka upplifun og umhverfisvernd. Uppfærsla þessa stefnuramma hefur nú, að því er ég best veit, staðið nokkuð lengi en samkvæmt upplýsingum á heimasíðu menningar- og viðskiptaráðuneytisins eiga að liggja fyrir niðurstöður sjö starfshópa um tiltekna efnisþætti stefnunnar og aðgerðaáætlun hennar. Það er engum blöðum um það að fletta að ferðaþjónustan hefur vaxið á ógnarhraða síðastliðinn rúman áratug þrátt fyrir dýfu í heimsfaraldrinum. Á síðasta ári voru skráðar brottfarir erlendra farþega á Keflavíkurflugvelli 2,2 milljónir talsins og hafði fjölgað um hálfa milljón frá 2022 og búast má við því að öll met verði slegin í ár og að til Íslands leggi 2,4 milljónir ferðamanna leið sína. Það er sexfaldur fjöldi þeirra sem búa á Íslandi. Árið 2030 gæti fjöldinn verði kominn yfir 3 milljónir, kannski rúmlega það. Eins og við öll vitum, frú forseti, þá skapar þessi mikli fjöldi ekki bara tekjur og uppgang um allt land heldur einnig gífurlegt álag á innviði og náttúru landsins. Umferðin, vegasamgöngurnar, heilbrigðisþjónustan og sjálfar náttúrugersemarnar sem langflest eru hingað komin til að upplifa finna fyrir því flesta daga ársins. Atvinnugreinin skapar líka álag á lítil samfélög, t.d. vegna komu skemmtiferðaskipa, með öðrum hætti en aðrar atvinnugreinar. Uppgangurinn hefur verið góður og það er vel fyrir okkur öll og fyrir þjóðarbúið. En honum fylgir óhjákvæmilega þensla sem e.t.v. sést best á því að við þessa atvinnugrein starfa 35.000 manns og mikill fjöldi þeirra kemur sérstaklega til landsins frá öðrum löndum til að starfa hér við hana.

Ég vil nota þetta tækifæri til að spyrja hæstv. ráðherra um gerð aðgerðaáætlunar á grunni stefnumótunarinnar sem sjá má í upplýsingum frá ráðuneytinu og mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra, út frá spurningunni um aðgerðaáætlunina, hvort vinnan sé komin svo langt að hægt sé að sjá fyrir sér aðgerðabindingu í sérstökum ákvörðunum, lagabreytingum eða öðru sem gera þarf til að tryggja umgjörð ferðaþjónustunnar og að hún verði sem best.