154. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2024.

ferðaþjónustustefna.

561. mál
[17:07]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrir að vekja hér máls á málefnum ferðaþjónustunnar sem er afskaplega mikilvægt og á sama hátt fagna ég því að það styttist í aðgerðaáætlun og stefnu í ferðaþjónustunni þar sem sjálfbærni ferðaþjónustunnar er lögð til grundvallar. Ég held að þessir opnu umræðufundir sem eru nú fram undan skipti miklu máli, það skiptir auðvitað máli að taka inn sem flest sjónarmið að borðinu. Jafnframt tek ég heils hugar undir mikilvægi þess að þegar það hefur verið gert þá komi þessi stefna til umfjöllunar hér á þinginu og við getum rýnt þessa þætti, eins og hæstv. ráðherra fór yfir, út frá efnahag, samfélagi, umhverfi og upplifun gestanna.