154. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2024.

hlaðvarpsgerð Ríkisútvarpsins.

528. mál
[17:25]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og hún er auðvitað mjög mikilvæg. Ég veit ekki hvort það hefur farið fram hjá hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttur að við höfum verið að styðja við frjálsa fjölmiðla. Nýverið var skrifað undir þjónustusamning við RÚV þar sem við vinnum að því að minnka umfang RÚV á auglýsingamarkaði. Ein meginástæða þess að RÚV hefur til að mynda ekki verið tekið af auglýsingamarkaði er sú einfalda staðreynd að auglýsingar á miðlum, þ.e. á veraldarvefnum, eru meira og minna hjá þessum stóru efnisveitum. Í Svíþjóð fara um 80% til þessara miðla vegna þess, ég veit ekki hvort það hefur farið fram hjá hv. þingmanni, að þar er fólkið og þess vegna eru auglýsingarnar þar. Ef það væri svona einfalt að leysa stöðu frjálsra fjölmiðla með því bara að taka RÚV af auglýsingamarkaði þá er ég sannfærð um að sú ágæta ríkisstjórn sem við styðjum báðar væri búin að því. Ef svarið væri svona einfalt þá værum við löngu búin að því. Staðreyndin er sú að það er ekki. Ef við horfum til Lettlands þar sem var hugsað nákvæmlega eins og hv. þingmaður, að það væri bara leiðin — hvað gerðist? Meiri hlutinn af þessum auglýsingum fór allur á Facebook, YouTube og alla þessa miðla. Þess vegna hef ég ákveðið að stíga varlega til jarðar og ég hafna því alfarið að það sé ekki verið að sinna þessum málaflokki og hafna þessum lýsingum sem hv. þingmaður var hér áðan með.