154. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2024.

aðkoma ríkisstjórnarinnar að gerð kjarasamninga.

[10:41]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að vera sammála hæstv. fjármálaráðherra þegar kemur að því að það eru mikil verðmæti fólgin í því að ná langtímasamningum og við eigum að gera allt til að stuðla að þeim. En ég verð að segja að það er umhugsunarefni hvert við erum að þróast núna þegar kemur að kjaramálum. Það eru ríkar kröfur settar á herðar ríkisins núna þegar helmingur vinnumarkaður er undir, það er verið að krefjast þess að það verði allt að 25 milljarðar í útgjöld fyrir ríkissjóð á hverju ári. Fjármálaráðherra hefur sagt að þessu verði hugsanlega mætt með samdrætti í öðrum útgjöldum. Mig langar þá að vita og spyrja ráðherra: Hefur það verið kortlagt? Er samstaða um það í ríkisstjórn að mæta hugsanlegum útgjöldum vegna kjaraviðræðna með samdrætti eða niðurskurði? Hefur svigrúm ríkisins til að mæta kröfum aðila vinnumarkaðarins verið metið og kortlagt? Ég segi að það er umhugsunarefni að þetta er hugsanlega þróast í það að staða, stefna og sýn í efnahagsmálum, sem alla jafna er mótuð við ríkisstjórnarborð, eigi að vera mótuð við við kjarasamningaborðið.

Ég hef verulegar áhyggjur af því að það er verið að segja núna við eigum að ná þjóðarsátt. Við viljum öll ná þjóðarsátt en þetta er ekki sú þjóðarsátt sem við horfðum upp árið 1990 þar sem meginhlutverk ríkisins var að hafa hemil á útgjöldum, hemil á því að hækka verðlag í landinu og meginhlutverk ríkisins var að stuðla að stöðugu gengi. Mér finnst þetta samtal ekki hafa átt sér stað hér í þessum þingsal, hvert við erum að fara með aðkomu ríkisins þegar kemur að kjaraviðræðum. Með þessu er ég ekki að segja að ríkisvaldið eigi ekki að koma að því að reyna að ná þessum verðmætum í langtímasamningum. En við verðum að þora að eiga hér umræðu um það hvert við erum að fara þegar kemur að útgjöldum ríkisins. Og það vekur auðvitað furðu að Samtök atvinnulífsins ætli sér að senda sinn launakostnað og þann reikning beint til ríkisins.