154. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2024.

aðkoma ríkisstjórnarinnar að gerð kjarasamninga.

[10:46]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég vil undirstrika spurningu mína: Er samstaða í ríkisstjórninni um að mæta þessum kröfum? Er samstaða í ríkisstjórninni um að fara þá leið sem fjármálaráðherra hefur boðað með samdrætti í ríkisútgjöldum? Við erum búin að upplifa þessa viku mjög skrýtna. Við erum búin að sjá algjörlega sundraða ríkisstjórn þegar kemur að orkumálum, útlendingamálum og síðast í gær heilbrigðismálum. Er einhugur í ríkisstjórn um aðkomu ríkisins að kjaramálum? Er fjármálaráðherra að segja hér að ríkisstjórnin sé búin að gefa frá sér pólitíska forystu um það hvernig eigi að haga ríkisfjármálunum? Á bara að afhenda það helmingi vinnumarkaðarins? Höfum í huga að hinn hluti vinnumarkaðarins er eftir. Við eigum líka eftir að taka risastóra umræðu um það að bilið milli faglærðra og ófaglærðra er að minnka. Viljum við það til lengri tíma sem þekkingarsamfélag? Það er engin pólitísk forysta hér í þessum sal til að leiða áfram þessar lykilspurningar, hvert við viljum fara með ríkisfjármálin. (Forseti hringir.) Er fjármálaráðherra að segja mér að það sé samstaða í ríkisstjórninni um nálgunina, (Forseti hringir.) samstaða um samdrátt, samstaða um það að afhenda pólitíska forystu og ábyrgð á ríkisfjármálum eitthvert annað heldur en hér inn í þingsal?